Þjálfarar
Þjálfarastarfið er veigamesta starfið í íþróttafélaginu. Í þjálfun barna og unglinga skal helsta markmiðið vera að sjá um að efla alhliða þroska, jafnt líkamlegan, andlegan sem félagslegan og bæta tækni einstaklingsins í þeim íþróttagreinum sem hjá félaginu eru stundaðar. Þeir þurfa að sjá um að iðkendur fái verkefni við sitt hæfi, aðstoða þá í þjálfuninni, hvetja þá til áframhaldandi iðkunar og sjá til þess að þeir tileinki sér hollar og heilbrigðar lífsvenjur. Þá er lögð á það áhersla að þjálfarar séu í góðu sambandi við foreldra barna og unglinga og þann grunnskóla í nágrenni félagsins sem börnin sækja.
Lögð er á það áhersla að þjálfarar séu útsjónarsamir og hafi til að bera faglega þekkingu á líkamlegum-, andlegum- og félagslegum þörfum þess aldurshóps sem þeir eru að vinna með hverju sinni og að þeir skipuleggi þjálfun með hliðsjón af því
Stefnt skal að því að yfirumsjón með þjálfunarhluta sé í höndum einstakra þjálfara félagsins. Þetta er ein af forsendum þess að starf í deildum íþróttafélagsins geti þróast og dafnað. Þróun og árangursríkt íþróttastarf er sérstaklega háð áhuga og frumkvæði þjálfara. Hver þjálfari skrifar undir þjálfarasamning fyrir hvert tímabil eða gerir lengri samning.
Ef fjöldi iðkenda fer yfir 15-20 þá er ráðin aðstoðarþjálfari og verður aðalþjálfaranum innan handar í þjálfuninni út keppnistímabilið.
Menntun þjálfara
Stefna Hauka er að allir sem koma að þjálfum barna og unglinga hjá félaginu hafi lágmarksmenntun til þjálfunar samkvæmt kröfum ÍSÍ eða sérsambanda. Almennt eiga aðalþjálfarar innan félagsins að vera með efsta þjálfara stig í viðkomandi grein eða hafa að markmiði að leita þeirrar menntunar.
Félagið hvetur þjálfara til að afla sér aukinnar menntunar á sviði þjálfunar og aðstoðar þá við að finna réttu námskeiðin.
Samráðsfundir
Stefna Hauka er að haldnir séu samráðsfundir þjálfara tvisvar til þrisvar á ári. Á fyrsta fundi er mikilvægt að fara yfir atriði eins og kröfur til þjálfara, námskeið sem í boði eru fyrir þá, samræmdar starfsreglur, íþróttanámskránna og þau mót sem í boði eru fyrir hvern aldursflokk. Íþróttastjóri boðar til fundar og annast fundarstjórn.