Hlutverk stjórnar 

Meginhlutverk stjórnar er að stýra starfseminni í samræmi við vilja félagsmanna eins og fram kemur í lögum félags og starfsreglum deildar, fundarsamþykktum, samþykktri stefnu og markmiðum. Þá skal leitast við að byggja upp og viðhalda heilbrigðum félagsanda í störfum knattspyrnudeildar. Af einstökum verkefnum stjórnar má m.a. nefna:

 

  • áætlanagerð fyrir almenna starfsemi og framkvæmdir til lengri og skemmri tíma
  • að móta hugmyndir og tillögur um ný viðfangsefni
  • að leysa vandamál sem upp kunna að koma
  • að framfylgja samþykktum og ályktunum
  • að fylgjast með að áætlanir og fjárhagur haldist í hendur
  • að taka á móti erindum sem berast og afgreiða þau
  • að undirbúa fundi og boða til þeirra
  • að skipta verkum með einstökum stjórnarmönnum, nefndum og félagsmönnum og samræma störf þeirra.

 

Formaður

Ábyrgðarmesta hlutverk stjórnarmanns er í höndum formanns félagsins og formanna deilda. Það er mjög mikilvægt að formaður hafi stjórnunarhæfileika og sinni starfi sínu af áhuga. Nauðsynlegt er fyrir formann deildarinnar að hafa staðgóða þekkingu á málefnum er varða íþróttir og þá sérstaklega knattspyrnu. Formaður þarf einnig að hafa gott lag á því að skipta verkum með stjórnarmönnum þannig að allir hafi ákveðnum verkefnum að sinna. Þá þarf hann einnig að hafa yfirsýn yfir að verk séu unnin rétt og vel og tímamörk séu haldin.

Gagnkvæmt traust formanns og annarra stjórnarmanna er helsta forsenda þess að stjórnunarstarf beri árangur. Framkoma formanns og annarra stjórnarmanna, jafnt innan vallar sem utan, á að vera öðrum félagsmönnum fyrirmynd. Helsta verksvið formanns er:

 

  • að koma fram fyrir hönd deildar og vera málsvari hannar gagnvart öðrum aðilum
  • að undirbúa stjórnarfundi, sjá til þess að til þeirra sé boðað samkvæmt framlagðri dagskrá hverju sinni
  • að sjá til þess að félagsmenn séu alltaf vel upplýstir um tilgang og markmið deildarinnar
  • að sjá til þess að lögum félags og deildar og samþykktum félagsfunda og aðalfunda sé framfylgt
  • að sjá til þess að öll erindi sem deildinni berast séu afgreidd svo fljótt sem auðið er
  • að sjá til þess að starfsemi deildarinnar sé vel skipulögð og fari vel fram á öllum sviðum
  • að sjá til þess að sem flestir félagsmenn séu virkjaðir til starfa hjá deildinni
  • að félagsmönnum sé gefinn kostur á því að meta reglulega hvernig félagsstarfið gengur og hvort breyta þurfi um leiðir til að ná settum markmiðum
  • að hafa umsjón með samningum sem deildin gerir
  • að boða fundi á vegum deildarinnar.

 

Varaformaður

Í forföllum formanns tekur varaformaður við störfum hans. Hann þarf því að vera vel að sér í málefnum félagsins og deildar til þess að geta tekið við forystuhlutverki með stuttum fyrirvara. Nauðsynlegt er að varaformaður taki að sér umsjón með ákveðnum þáttum félagsstarfsins og sé þannig tengiliður milli stjórnar, ýmissa nefnda og starfshópa.

Ritari

Ritari gegnir veigamiklu hlutverki í stjórn deildar. Miklum máli skiptir að hann vinni af alúð og haldi af nákvæmni saman öllum gögnum sem deildinni berast, s.s. að skrá fundargerðir og skýrslur. Nauðsynlegt er að ritari taki að sér umsjón með ákveðnum þáttum félagsstarfsins og sé þannig tengiliður milli stjórnar og ýmissa starfshópa. Meðal helstu verkefna ritarar má nefna:

 

  • að skrá fundargerðir á stjórnarfundum og félagsfundum þegar ekki eru kjörnir sérstakir fundaritarar
  • að sjá um bréfaskriftir í samráði við formann, aðra stjórnarmenn eða framkvæmdarstjóra
  • að undirbúa ársskýrslu og e.t.v. fleiri skýrslur um starfsemina í samvinnu við formann og framkvæmdastjóra
  • að byggja upp gagna- og heimildasafn deildar
  • að sjá til þess að bréf og skjöl séu í góðri vörslu.

 

Gjaldkeri

Meginhlutverk gjaldkera er að hafa umsjón með fjárreiðum og annast reikningshald í samræmi við lög og reglur íþróttahreyfingarinnar. Nauðsynlegt er að gjaldkeri sé vel að sé í bókfærslu auk þess sem hann þarf að hafa góða yfirsýn yfir efnahag deildarinnar. Meðal helstu verkefna gjaldkera eru:

 

  • að hafa umsjón með innheimtu félagsgjalda
  • að sjá til þess að gjöld sem ber að greiða séu greidd
  • að sjá til þess að skuldir séu innheimtar
  • ávöxtun lausafjár og varasjóð
  • að semja ársreikninga
  • að hafa umsjón með fjáröflunum
  • að annast gerð fjárhagsáætlunar
  • að hafa umsjón með færslu bókhalds og reikningshaldi deildarinnar.