Haukar gengu í kvöld frá samningi við Terrence Watson um að leika með Haukum til enda leiktíðar. Terrence spilaði á síðasta tímabili með Skagamönnum og þótti standa sig afburða vel bæði innan sem utan vallar en hann var spilandi þjálfari liðs Skagamanna á síðustu leiktíð. Eins og kunnugt er voru Skagamenn í hörkubaráttu á liðnu keppnistímabili þá nýliðar í 1.deild við að komast upp í úrvalsdeildina eftir magnaða baráttu við Skallagrím.
Terrence er 24 ára gamall 198 cm á hæð og getur leikið margar stöður á vellinum en honum er ætlað að styrkja teig Hauka. Terrence mætti á sína fyrstu æfingu með Haukum nú í kvöld og þótti standa sig vel, Magnús Ingi Óskarsson formaður meistaraflokksráðs karla og Ívar Ásgrímsson þjálfari Hauka luku samningi við hann að æfingu lokinni. Vonast er til að Terrence verði orðinn löglegur með Haukum fyrir næsta leik gegn Hetti þann 11.janúar.