Meðfylgjandi texti barst heimasíðunni frá Hermanni Þórðarsyni, fyrrverandi formanni handknattleiksdeildar og félagsins. Þar fjallar hann um árangur meistaraflokks kvenna í handbolta í vetur.
Margir Haukamenn eru súrir yfir því að stelpurnar okkar náðu ekki að vinna Íslandsmeistaratitilinn á þessu leiktímabili. Árangur þeirra verður þó að teljast viðunandi miðað við aðstæður og styrkleika sterkustu andstæðinganna. Að vinna deildina er mikið afrek og að mínu viti það mesta vegna þess að það er erfiðasta verkefnið í handboltanum. Það lið sem vinnur deildina hefur unnið mesta afrekið. Bikarkeppnir eru happdrætti og lokakeppni fjögurra liða er er bara smámunir miðað við deildarkeppnina. Persónulega finnst mér að sigurvegarar deildarkeppninnar ættu að vera Íslandsmeistarar. Lokakeppni fjögurra eða fleiri liða er bara aukakeppni sem getur heitið hvað sem er. Það mætti t.d. breyta bikarkeppninni þannig að liðin í efstu deild tækju ekki þátt í henni fyrr en að lokinni deildarkeppninni og fjögur efstu liðin kæmu þá inn í keppnina. Það er hægt að skipuleggja forkeppnina á ýmsan máta og ég fer ekkert nánar út í það. Það hafa orðið miklar breytingar á mannskap í mfl. Kvenna í Haukum á undanförnum árum. Það tekur alltaf nokkurn tíma að byggja upp nýtt lið. Við verðum því að sýna þolinmæði, það er ekki alltaf hægt að gera sömu kröfur. Mér sýnist að það sem varð þess einkum valdandi að við duttum út á móti hinu frábæra kvennaliði Fram var óvenju slæm nýting í vítaköstum og skortur á úthaldi. Þetta eru hlutir sem auðvelt er að laga ef vilji er fyrir hendi.Ég vil þakka stelpunum okkar fyrir góða skemmtun og marga frábæra leiki í vetur. Hittumst kát að nýju á næstu leiktíð.
Hermann