Það var ágætis mæting á æfinguna á þriðjudaginn, en vegna mikillar ásóknar í húsið, var okkur komið fyrir í mótstjórnarherbergi á efri hæð Ásvalla. Þegar æfingin hófst var leikur Hauka og ÍS í úrslitakeppni kvenna í körfunni í fullum gangi, svo fór að Haukastelpur rúlluðu Stúdínum upp og þegar þetta er ritað er ljóst að þær mæta Keflvíkingum í úrslitum. Það verður svakaleg rimma.
En að æfingunni: 11 manns létu sjá sig og var tefld tvöföld umferð. Baráttan um efsta sætið var á milli Sverris Þ., Heimis og Varða. Svo fór að lokum að Varði hafði sigur, þar vó væntanlega mest að hann vann Heimi 2-0 og Sverri 1,5-0,5. Hann smellti hins vegar að vanda inn nokkrum jafnteflum gegn lægra skrifuðum mönnum, auk taps gegn hinum síkáta Marteini sem teflir oft mjög vel en á jafnan í hinu mesta basli með klukkuna. Undirritaður og Páll sigldu svo ansi hreint lygnan sjó í 4-5 sæti. Vor ástkæri formaður sýndi á köflum magnaða takta (gerði t.d. 2 rokksólid jafntefli við Varða), en á milli kom í ljós að langdrægir biskupar (hans langsterkasta vopn) duga ekki alltaf. Geir (krónprins uppskiptalands)mætti nota tímann betur, en hann má eiga það að þegar vel tekst til í uppskiptum getur verið erfitt við hann að eiga. Hann sýndi það einmitt í deildó um daginn þegar hann varð sá eini sem náði 50% árangri fyrir lið Hauka C (0,5 af 1).
Lokastaðan:
1. Þorvarður 17 af 20
2-3. Heimir 16
2-3. Sverrir Þ. 16
4-5. Ingi 11
4-5. Páll 11
6. Marteinn 8,5
7. Auðbergur 8
8. Stefán P. 7
9. Gísli 6
10. Geir 5
11. Ragnar 4,5