Nú þegar búið er að spila í 32 liða úrslitum bikarsins og draga í 16 liða úrslitum er vert að kanna aðeins stöðuna á liðinu og setti haukar.is sig í samband við Ívar Ásgrímsson, þjálfara karlaliðsins, og kastaði á hann nokkrum spurningum.
Haukar sigruðu lið KFÍ í frekar döprum leik þar sem Haukar sýndu allt annað en þá spilamennsku sem liðið hefur boðið stuðningsmönnum upp á í undanförnum leikjum. Ívar sagði liðið hafi einfaldlega átt slakan leik og ekki hafi verið um vanmat að ræða
„Við áttum slakan leik á sunnudaginn og má kannski segja að við höfum sloppið með sigur þar sem andstæðingurinn gerði fleiri mistök en við. Við vorum tilbúnir erfiðum leik þar sem KFÍ hefur verið að gera liðum erfitt fyrir á sínum heimavelli, Njarðvík rétt náði að hrista þá af sér í lokin og svo má segja að KFÍ hafi hent leiknum frá sér á móti Þór, þannig að við vissum að þetta yrði erfiður leikur, eins og kom svo á daginn,“ sagði Ívar og telur að hægt sé að byggja á þessum leik gegn KFÍ þrátt fyrir slaka frammistöðu.
„Við höfðum verið að spila ágætlega og verð einbeittir í deildinni en þarna vantaði aðeins uppá einbeitingu jafnt í sókn sem vörn. Þeir ýttu okkur úr stöðum í sókninni og við fórum úr skipulaginu og hættum að gera það sem hefur reynst vel í síðustu leikjum. Þetta kennir okkur vonalega það að reyna að halda skipulagi og spila okkar leik en fara ekki að reyna einstaklingsframtakið.“
Dregið var í 16 liða úrslit í dag og fengu Haukar heimaleik gegn Snæfell. Haukar áttu flottan leik gegn þeim í síðustu umferð Domino‘s deildarinnar og alveg ljóst að Haukar geta unnið þetta lið þrátt fyrir mikla reynslu í liði Snæfells. Ívar segist hlakka til að fá Snæfellinga aftur í heimsókn og að mestu máli skipti að hafa fengið heimaleik.
„Aðal málið í bikarkeppninni er að fá heimaleik og við fengum það. Auðvitað hefðum við viljað fá lakari mótherja en við höfum sýnt það að við getum unnið Snæfellsliðið og það er bara að endurtaka leikinn frá deildinni og leggja þá að velli. Snæfells liðið er vel mannað lið og með mikið af reynslumiklum leikmönnum sem munu örugglega gíra sig vel upp í þessum leik þar sem þeir þekkja þessa keppni vel. Við hlökkum mikið til að fá Snæfell í heimsókn og verðum örugglega vel gíraðir fyrir þennan leik, þar sem bikarinn er oft keppni „litlu“ liðanna og þar er hægt að ná góðum árangri.“
Mæta Stjörnunni í deild á fimmtudag.
Haukar skjótast yfir lækinn á fimmtudaginn og heimsækja Stjörnuna í Ásgarði og býst Ívar við erfiðum útileik.
„Stjarnan eru í sárum eftir slæm úrslit það sem af er tímabilunu en eins og Snæfell þá er mikil reynsla í Stjörnu liðinu og þeir eru með mjög vel mannað lið. Þeir eru komnir með nýjan útlending sem lýtur mjög vel út og því má búast við erfiðum útileik. Þeir verða örugglega harðir fyrir og vilja komast á sigurbraut. Tap hjá þeim setur mikla pressu á þá en kemur okkur í fína stöðu. Það má búast við því að þeir byrji af krafti og reyni að spila fast á móti okkur en við verðum aftur á móti að vera skynsamir og vera harðir á móti. Ef við náum að leiða í byrjun má búast við að þeir verði pirraðir og fari að brjóta og taka slök skot og því er mikilvægt fyrir okkur að láta þá finna fyrir því að við ætlum okkur sigur í þessum leik strax frá byrjun.“
„Það eru smá álagsmeiðsli í hópnum en menn ættu að hrista það af sér fljótlega. Kiddi er slæmur í hné eftir samstuð í Snæfellsleiknum og hvíldi í gær, Helgi er allur að braggast og er smátt og smátt að komast inní þetta hjá okkur eftir að hafa misst rúman hálfan mánuð frá vegna meiðsla. Aðrir eru í mjög góðu standi og vilja ólmir komast aftur á völlinn og bæta fyrir síðustu spilamennsku,“ sagði Ívar að lokum um ástand hópsins.