Liðin eru 11 ár síðan að Haukar komust jafnt langt í bikarkeppni KKÍ og þeir eru komnir núna. Árið var 2000 og mótherjarnir þeir sömu og á sunnudaginn, Grindavík. Barátta Hauka og Grindavíkur var einkennandi þetta ár því liðin mættust bæði í undanúrslitum bikarkeppninnar og í undanúrslitum úrslitakeppninnar og í bæði skiptin höfðu Grindvíkingar betur og spiluðu til úrslita um báða titla. Fór svo að Grindvíkingar urðu bikarmeistarar þetta ár en KR-ingar Íslandsmeistarar.
Bikarleikurinn er sennilegast ofarlega í minni manna fyrir þær sakir að Guðlaugur Eyjólfsson, leikmaður Grindavíkur, skoraði þriggja stiga körfu þegar að 20 sekúndur voru eftir og kom Grindavík yfir. Haukaliðið reyndi hvað þeir gátu til þess að jafna eða komast yfir en Grindavíkingar héldu út, eins og það er orðað í gamalli frétt, og ærðust af gleði.
Ívar Ásgrímsson var þjálfari liðsins þá og í samtali við heimasíðuna sagði Ívar að þetta hefi verið alveg skelfilegt ár því Grindavík slóg Haukaliðið út bæði í deild og bikar og í bæði skiptin á lokasekúndum leiksins.
Við spurðum Ívar hvernig minningin af þessum leik hafi verið og tóninn var þungur. „Þessu ári er ekki hægt að gleyma. Við vorum með mjög gott lið á þessum tíma og lentum í því að verða í öðru sæti í deildinni, einum leik á eftir Njarðvík og svo dettum við út í undanúrslitum bikars á móti Grindavík á síðasta skoti leiksins og einnig í undanúrslitum úrslitakeppninnar á svipaðan hátt þar sem Grindavík skorar úrslitakörfuna á síðustu sek.leiksins.“
„Ég held að mér hafi aldrei liðið eins illa og eftir þetta tímabil. Það er eitt það grátlegast að tapa í undanúrslitum, mun verra en að tapa í úrslitum þar sem allir vilja komast í úrslitaleikinn og fá að kynnast þeirri stemmningu sem þar ríkir. Gulli [Guðlaugur Eyjólfsson] er enn að spila í Grindavík í dag og vonandi launum við honum lambið gráa á sunnudaginn, “ sagði Ívar og er vongóður um leik Hauka á sunnudaginn
„Við erum á uppleið. Pétur hefur verið að gera frábæra hluti og leyfir strákunum að blómstra. Við höfum verið að spila mjög vel og hefur verið góð þróun í okkar leik, ef við undanskiljum KR leikinn. Í síðasta leik þá sýndum við að við erum með sterkari mannskap í mörgum stöðum á vellinum og það besta að ef menn leggja sig fram í vörninni þá ættum við að stoppa þá þar sem Haukur og Emil eru mun stærri en þeir menn sem þeir hafa verið að dekka og geta þannig lokað á 3ja stiga skot Grindvíkinga. Liðið hefur verið að spila góða vörn og menn hafa verið óeigingjarnir í sókninni“.
„Semaj [Inge] og Gerard [Robinson] hafa verið að draga vagninn að miklu leyti sem hefur gefið hinum leikmönnunum meira svigrúm og þeir hafa nýtt sér það nokkuð vel.
Grindvíkingarnir hafa tapað síðustu tveim leikjum nokkuð stórt, á móti okkur og ÍR og það er örugglega kominn einhver suðurnesja skjálfti í Grindavík á meðan við eigum að vera með sjálfstraustið í botni. Ef við mætum vel stemmdir og menn leggja sig fram í vörninni og berjast um hvert frákast, eins og við gerðum í Grindavík, tökum við þennan leik“.
Haukaliðið frekar styrkt í byrjun leiks gegn Fjölni í gær en Ívar heldur að menn verði klárir frá fyrstu mínútu.
„Það var eins og menn væru að reyna að átta sig á andstæðingnum í byrjun, menn voru ragir og það vantaði smá kraft bæði í vörn og sókn í byrjun. Til dæmis var Haukur [Óskarsson] mjög ragur og tók ekki skot þegar það gafst og tók svo skot af því að allir sögðu að hann ætti að skjóta. Um leið og ákveðnin kom þá var þetta ekki spurning, við réðum hraðanum allan leikinn og við létum þá ekki komast í mörg hraðaupphlaup sem er lykillinn af því að leggja Fjölnismenn að velli.“
„Ég trúi ekki öðru en að menn mæti vel stemmdir á sunnudaginn og komi dýrvitlausir til leiks. Við höfum ekki efni á því að byrja í öðrum leikhluta. Við þurfum að passa Pál Axel vel og svo líka að gefa þeim ekki auðveld 3ja stiga skot,“ sagði Ívar að lokum og kastaði rétt í lokinn fram sinni spá um leikinn.
„Þetta verður Haukasigur 88 – 79. Verður jafn fram að lok 4 leikhluta en þá hristum við þá af okkur og löndum mikilvægum baráttusigri“.