Haukar mæta BÍ/Bolungarvík í Lengjubikarnum á sunnudaginn í Kórnum og hefst leikurinn kl. 15.50. Ólafur Jóhannesson, þjálfari Hauka, eða Óli Jó eins og hann er jafnan kallaður hvetur Haukamenn til að fjölmenna á leikinn enda skipti stuðningur áhorfenda miklu fyrir leikmenn fyrir komandi átök. ,,Ég vil hvetja alla Haukamenn til að koma og fylgjast með leikjum okkar. Stuðningur áhorfenda styrkir okkar leikmenn.“
Haukar hafa bætt við nokkrum reynsluboltum við liðið og má þar nefna Sigurbjörn Hreiðarsson frá Val, Val Fannar Gíslason frá Fylki og síðast en ekki síst Guðmund Sævarsson frá FH. Óli kveðst mjög sáttur við þann hóp sem hann hafi til umráða. ,,Það er mikil reynsla í hópnum og svo margir ungir strákar sem klárlega eiga eftir að læra margt af reynsluboltunum en við erum engu að síður að líta í kringum okkur eftir leikmönnum sem styrkja okkur enn frekar fyrir komandi átök.“
Haukar hafa spilað tvo leiki í Lengjubikarnum, gegn Breiðablik og Víking frá Ólafsvík, og tapað báðum frekar klaufalega þar sem við fórum illa með færi og gerðum klaufaleg mistök. Hvernig leggst leikuinn gegn BÍ í þig? ,,Já það er rétt, byrjunin í deildarbikarnum er ekki eins og við hefðum óskað okkur en leikurinn gegn BÍ leggst vel í okkur, þeir eru í sömu deild og við þannig að það er góð prófraun fyrir okkur. Ég hvet bara Haukafólk til að mæta í Kórinn á sunnudaginn og hvetja okkur til sigurs.“
Að lokum, ertu kominn heim eftir að hafa þjálfað meðal annars Skallagrím og Fimleikafélagið? ,,Já, það er óhætt að segja það eftir að hafa þjálfað lengi og hjá mörgum félögum er ég kominn heim í það félag sem ég ólst upp í.“