Ótrúleg dramatík í leik Hauka og Grindavíkur

Það bjóst líklega engum við að upplifa þá dramatík sem leikmenn Hauka og Grindavíkur buðu upp á þegar liðin mættust í annarri umferð Domino‘s deildar karla á Ásvöllum í gær. Jafnt var á öllum tölum nánast allan leikinn og tvívegis þurfti að grípa til framlengingar til að skera úr um sigurvegara. Það fór svo að Grindavík sigraði leikinn með tveimur stigum 102-104.

Það tók bæði lið nokkrar sóknir til að fá fyrstu körfu leiksins. Grindvíkingar skoruðu hana og höfðu yfirhöndina í upphafi leiks. Í stöðunni 14-22 bjuggust sennilegast einhverjir við að Íslandsmeistararnir myndu sigla þægilega fram úr, halda forskoti sínu og sigra örugglega að lokum en þá tóku Haukamenn við sér og þá sér í lagi Haukur Óskarsson. Drengurinn var sjóðandi og með nokkrum körfum frá honum og Terrence Watson jöfnuðu Haukar og staðan jöfn eftir fyrsta leikhluta 22-22. Áfram hélt leikurinn að vera jafn og spennandi og enn var staðan jöfn í hálfleik, 43-43.

Haukar leiddu eftir þriðja leikhluta en líklega bjóst enginn við því sem koma skildi. Haukar náðu sex stiga forskoti sem Grindvíkingar mjötluðu niður og jöfnuðu leikinn. Allt var í járnum þegar Grindvíkingar héldu til síðustu sóknar í leiknum og freistuðu þess að ná körfu og sigra. Skot þeirra geigaði og Haukar náðu frákastinu. Á einhvern undraverðan hátt náði Sigurður Þorsteinsson að komast inn í sendingu keyra að körfunni og skora. Brotið var á honum í skotinu og hann átti því að fara á línuna og taka eitt vítaskot eftir að leiktíminn var liðinn en þjálfarar Hauka vildu meina að leikurinn hafði verið búinn þegar Sigurður sleppti boltanum og því hvorki karfan né villan gild. Eftir að dómari leiksins hafði skoðað upptöku af atvikinu koma hann aftur inn á völlinn og dæmdi að leikurinn hafi verið búinn. Grípa þurfti því til framlengingar við mikinn fögnuð heimamanna og stuðningsmanna þeirra.

Ekki var mikið skorað í framlengingunni og settu Haukar niður tvær góðar körfur. Jóhann Ólafsson, Grindavík, jafnaði leikinn á vítalínunni og aftur áttu Grindvíkingar síðasta orðið framlengingunni. Ómar Sævarsson náði sóknarfrákasti, þegar Grindavík freistaði þess aftur að klára leikinn, og setti niður skotið. Aftur vildu Haukar meina að leiktíminn hafði verið liðinn og aftur fóru dómarar leiksins að skoða upptöku af leiknum. Viti menn aftur dæmdu þeir að leiktíminn hafði verið liðinn og önnur framlenging staðreynd.

Grindvíkingar höfðu á endanum betur þó svo að sigurinn hefði getað orðið heimamanna en happadísirnar voru ekki á bekk Haukamanna í þetta skiptið. Leikmenn Hauka börðust þó drengilega og gátu gengið stoltir frá velli.

Terrence Watson var stighæstur Hauka með 32 stig, 18 fráköst og 5 blokk og Haukur Óskarsson var sjóðandi með 31 stig.

Tengdar fréttir:
Þvílíkur leikur – Þvílíkt drama – Þvílík fegurð!
Myndasafn úr leiknum
Tölfræði leiksins