Bikarhelgi KKÍ var haldin um helgina í Grindavík og áttu Haukar fjögur lið sem voru að spila til úrslita, 10. flokk stúlkna, stúlknaflokk, unglingaflokk stúlkna og drengjaflokk.
10 flokkur stúlkna keppti á móti Keflavík og höfðu fyrir þann leik aldrei náð að leggja þær að velli. Haukastúlkur komu brjálaðar til leiks og náðu strax forystu sem þær létu ekki af hendi og sigruðu verðskuldað. Frábær sigur og liðsheildin skilaði frábærum sigri á góðu Keflavíkurliði. Inga Rún var valinn maður leiksins. Leikurinn endaði 38-35 fyrir Hauka.
Unglingaflokkur stúlkna spilaði svo síðar um daginn, einnig á móti Keflvíkingum. Ljóst var fyrir leikinn að þetta yrði jafn og spennandi leikur tveggja öflugra liða, en megin þorri beggja liða spilar með meistaraflokki og eru lykilmenn þar. Mikil barátta var í leiknum og spennan hafði áhrif á gæði leiksins. Haukastelpurnar leiddu alveg fram að lokamínútunni og náðu vænlegri forystu er nokkrar mínútur voru eftir. Keflavíkurliðið herti vörnina sína mikið í lokin og Haukarnir gáfu nokkrar slakar sendingar, auk þess að hitta illa á vítalínunni sem varð til þessa að Keflavík stal sigrinum á síðustu sekúndunum. Sárt tap staðreynd en árangurinn samt frábær. Leikurinn endaði 55 – 57 fyrir Keflavík.
Stúlknaflokkur spilaði svo á sunnudeginum, einnig á móti Keflavík. Mikið af sömu stelpunum í báðum liðum að spila sinn þriðja leik um helgina og þreytan farinn að segja til sín. Fyrir leik var vitað að Haukarnir þyrftu að eiga toppleik til að sigra í þessum leik. Haukarnir ekki með neinn leikmann á eldra ári og flestar enn í 10. flokki á meðan að Keflavík stillti upp þrem stelpum sem eru lykilmenn í meistaraflokknum. Fyrri hálfleikur var hnífjafn og allt stefndi í jafnan og spennandi leik. En Keflavíkurliðið komu vel stefndar í seinni hlutann og hertu sinn varnarleik á meðan að Haukarnir urðu ragar og lentu trekk í trekk í því að þurfa að taka erfitt skot er skotklukkan var að renna út. En stelpurnar sýndu gríðarlegar baráttu í vörninni en það dugði ekki til og Keflavík vann leikinn sanngjarnt. leikurinn endaði 56 – 66 fyrir Keflavík.
Drengjaflokkur spilaði svo síðasta leik dagsins, við KR. Vitað var að um spennandi leik yrði að ræða þar sem þessi tvö lið eru efst í Íslandsmótinu, Haukar í fyrsta og KR í öðru sæti. Haukarnir tefla fram ungu liði en einungis tveir strákar á eldra ári. Haukarnir byrjuðu vel og komust í 11 – 0 en þá tóku KRingar við sér og komust yfir 11-12. Eftir þetta skiptust liðin á að leiða og í hálfleik var staðan 35-34 fyrir Hauka og ljóst að um spennandi leik yrði að ræða, sem varð rauninn. KRingar byrjuðu betur í síðari hálfleik og leiddu mestan hluta hans. Haukarnir í miklum villuvandræðum, Kristján kominn með 3 villur eftir 5 mín. í fyrri hálfleik og Arnór og Jón Ólafur fengu báðir sína 4 villu undir lok þriðja leikhlutans. Fjórði leikhluti var æsispennandi og er tæp 1. mín. var eftir þá jöfnuðu Haukarnir og spennan í hámarki. Haukar fengu þá dæmda á sig óíþróttamannslega villu sem ver af ódýrari gerðinni og enn eina ferðina ná dómarar að eyðileggja leik og það úrslitaleik. KRingar nýttu vítin og náðu að tryggja sér sigurinn eftir spennandi lokamínútur, 77 – 80.
Niðurstaðan því einn bikar og þrjú silfur. Árangur yngri flokka samt frábær og sýnir vel að Haukar eru eitt öflugasta félag landsins og nú er bara að byggja á þessum árangri og ná fleiri titlum, en úrslit Íslandsmótsins eru handan við hornið og þar ætla Haukarnir sér stóra hluti.