Á morgun, fimmtudag hefst úrslitakeppnin í meistaraflokki karla en þá taka Haukar á móti Frömurum á Ásvöllum. Leikurinn hefst klukkan 19:30.
Við fengum þá Kára Kristján Kristjánsson og Frey Brynjarsson í stutt spjall og nú ætlum við að gefa hinum síðarnefnda orðið:
„ Nú byrjar alveg nú keppni og það er mikil tilhlökkun að taka þátt aftur í úrslitakeppninni. Síðast þegar við spiluðum í úrslitakeppni urðum við Íslandsmeistarar og unnum alla leikina þ.e.a.s. 7-0. Nokkrir í liðinu hafa aldrei upplifð úrslitakeppni en við erum þónokkrir í liðinu sem höfum reynsluna fyrir svona slag. Það eru allir klárir í úrslitakeppni. Smávægileg meiðsli hverfa og menn verða tilbúnir að gefa allt í þetta,“ sagði Freyr.
Eins og við flest öll vitum sigruðum við deildina nokkuð örugglega og því mætum við liðinu sem lenti í 4.sæti deildarinnar sem eru Fram en HK var lengi vel í fjórða sætinu. Freyr segir að það hafi lítið skipt máli hvor liðinu þeir hefðu keppt á móti, „Það hefði ekki skipt miklu máli, við þurfum að vinna þessi lið til að verða Íslandsmeistarar. HK hafa reyndar verið á góðri siglingu og unnu klárlega fyrir 3.sætinu. Framarar eru eina liðið sem hefur unnið okkur á heimavelli, þannig að þeir eru og verða verðugir andstæðingar.“
Eins og Freyr sagði eru Framarar eina liðið sem hefur lagt Hauka af velli á Ásvöllum, en Haukar hafa svo sigrað Framara í tvígang í Safamýrinni eftir áramót og Freyr býst við jöfnu og spennandi einvígi. „ Við tökum bara einn leik fyrir í einu en eins og ég sagði áður þá er þetta alveg nýtt mót og öll liðin byrja á núlli. Við erum ekki búnir að vinna neitt ennþá og verðum að gefa okkur alla í þessa viðureign ef við ætlum okkur áfram.“
Að lokum spurðum við svo Frey út í hitt einvígið, milli Vals og HK en þar spáir hann Valsmönnum sigur; „ Mín spá fyrir þessa viðureign er að hún verði mjög spennandi. HK sýndi í síðasta leiknum í deildinni á móti Val og svo á móti okkur hér heim að þeir eru með mannskap til að fara alla leið. Valsarar hafa verið í meiðslavandræðum en eru að fá menn til baka og hafa á að skipa mjög öflugum heimavelli. En þeir hafa ekki tapað á heimavelli í vetur. Ég held að þessi viðureign endi 2-1 fyrir Val.“
Við þökkum Frey fyrir þetta viðtal og vonum að fólk fjölmenni á úrslitakeppnina en það er alveg ljóst að um spennandi leiki verður um að ræða.
Eins og fyrr segir, hefst leikurinn á morgun, fimmtudag kl. 19:30 á Ásvöllum.