Endurnýjaðir hafa verið samningar við þrjá af efnilegustu leikmönnum Hauka í meistaraflokki þá Emil Barja, Hauk Óskarsson og Örn Sigurðarson til 2 ára. Við undirritun samninga kom fram hjá Samúel Guðmundssyni formanni Körfuknattleiksdeildar Hauka að samningarnir við Emil, Hauk og Örn væru mikið ánægjuefni fyrir Hauka því með því væru Haukar að tryggja sér þann kjarna leikmanna sem byggt verður áfram upp í kringum á næstu árum.
Með samningunum væri einnig verið að verðlauna þessa leikmenn fyrir frábæra frammistöðu og miklar framfarir sem þeir hafa sýnt í vetur. Enda sópuðu þessir leikmenn til sín verðlaunum á lokahófi meistaraflokks á dögunum.
Samið hefur verið við Svein Ómar Sveinsson um að hann verði með leikmenn meistaraflokks í styrktarþjálfun í sumar auk þess sem Pétur Ingvarsson mun verða með strákana á stífum æfingum við að undirbúa liðið sem allra best undir næsta tímabil þar sem stefnan er að gera enn betur en á síðasta keppnistímabili.