Haukar tóku á móti Stjörnunni í kvöld í Iceland Express-deild karla. Hlutskipti þessa liða er búið að vera mjög ólíkt á tímabilinu. Stjörnumenn búnir að landa sigri í fyrstu tveimur leikjum sínum í Iceland Express-deildinni. Haukar komnir með tvö töp eftir fyrstu tvær umferðirnar. Því miður fyrir okkar menn var engin breyting á í kvöld. Stjörnumenn unnu öruggan sigur 68-89 þar sem Jovonni Shuler var stigahæstur Haukastráka með 22 stig.
Fyrstu mínútur leiksins var jafnræði með liðunum. Liðin skiptust á körfum. En í stöðunni 13-11 Haukum í vil kom góður kafli frá gestunum úr Garðabæ þar sem þeir skoruðu 11 stig í röð og breyttu stöðunni í 13-24. Eftir það náðu Haukar aldrei að minnka muninn að ráði og Stjörnumenn gengu á lagið og lönduðu þægilegum sigri.
Haukaliðið getur mun meira heldur en það sýndi í kvöld en lánleysið eltir strákana en boltinn virðist ekki skoppa með okkar mönnum.
Lykillinn að því að ná betri úrsitum er að þétta vörnina en hún var eins og gatasigri í kvöld og það gengur ekki gegn jafn sterku liði og Stjörnumenn hafa á að skipa.
Jovonni Shuler var stigahæstur í kvöld með 22 stig en hann var nálægt þrennunni alræmdu. Ásamt stigunum 22 tók hann 11 fráköst, gaf 7sjö stoðsendingar og stal fimm boltum.
Steinar Aronsson kom öflugur inn af bekknum en hann setti 10 stig ásamt því að berjast af krafti í vörninni.
Haukar eiga Fjölni næsta mánudag í Lengjubikarnum og hvetur heimasíðan alla að mæta og styðja strákana.