Föstudaginn 25. maí nk. eru 150 ár síðan Sr. Friðrik Friðriksson, æskulýðsleiðtogi og brautryðjandi í starfi með ungmennum, fæddist að Hálsi í Svarfaðardal. Hann stofnaði félögin KFUM og KFUK og urðu Valur, Væringar (síðar Skátabandalag Reykjavíkur), Haukar og allar fimm sumarbúðir KFUM og KFUK til út frá þeim. Karlakórinn Fóstbræður varð jafnframt til innan KFUM.
Í dag hafa tugþúsundir Íslendinga tekið þátt í starfi sem stendur í þakkarskuld við sr. Friðrik og að því tilefni hafa KFUM og KFUK, Valur, skátarnir, Haukar og Fóstbræður sameinast um að halda veglega viðburði í tengslum við afmælið.
Blómsveigur verður lagður við styttuna af sr. Friðrik í Lækjargötu, hlauparar munu spretta úr spori í árlegu sr. Friðrikshlaupi, 25 ára vígsluafmæli Friðrikskapellu verður fagnað, Birkiskáli II í Vatnaskógi verður vígður, Fjósið á Hlíðarenda opnað eftir formlega eftir gagngerar endurbætur og göngumessa haldin við Kaldársel.
Afmælisdagskráin nær hápunkti með hátíðarsamkomu í Lindakirkju þar sem Karlakórinn Fóstbræður, Jóhanna Helgason ásamt Karlakór KFUM, Valskórinn, Skátakórinn, Ljósbrot kvennakór KFUK, Hljómsveitin Sálmari koma fram auk þess sem ný kvikmynd um sr. Friðrik verður frumsýnd.
Afmælisnefnd Sr. Friðriks er fús til að aðstoða fjölmiðla við umfjöllun, bæði með myndefni, ábendingum um áhugaverða viðmælendur og vísanir í ítarefni.
Afmælisnefndina skipa:
Sr. Guðni Már Harðarson formaður (694-7474)
Þorgrímur Þráinsson fulltrúi Vals (661-4000)
Magnús Gunnarsson fulltrúi Hauka
Dagbjört Brynjarsdóttir fulltrúi Skáta
Salóme Jórunn Bernhardsdóttir fulltrúi KFUK
Þórarinn Björnsson fulltrúi KFUM
Lárus Loftsson fulltrúi Fóstbræðra
Hér má sjá dagskrána í heild sinni: http://www.kfum.is/…/hatidardagskra-150-ar-fra-faedingu-sr…/
Sr. Friðrik stofnaði KFUM og KFUK árið 1899 og í kjölfarið, er hann sá mismunandi áhuga og þörf barna og unglinga, studdi hann við og leiðbeindi æskulýðnum í hefja ýmis konar félagsstarf. Úfrá starfi KFUM urðu til knattspyrnufélagið Valur, Skátafélagið Væringjar sem síðar sameinaðist Skátabandalagi Reykjavíkur, Knattspyrnufélagið Haukar, Sumarbúðir í Kaldárseli, Vatnaskógi, Vindáshlíð, Ölveri og Hólavatni. Karlakórinn Fóstbræður varð jafnfram til innan KFUM og rekur upphaf sitt til Sr. Friðriks. Einnig stofnaði sr. Friðrik lúðrasveitir, skógræktar og bindindisfélög og kom á fót bókasafni KFUM sem ólíkt öðrum bókasöfnum hafði ekki bókasafnsgjöld og gerði því öllum áhugasömum kleift að hafa aðgengi að bókum, hann stofnaði jafnframt kvöldskóla KFUM sem einkum ungmenni af lægri stéttum sóttu.