Haukar sigruðu Augnablik 5-0 í Lengjubikar kvenna í kvöld en leikið var á Ásvöllum. Bæði liðin leika í Inkasso deildinni í sumar.
Elín Björg Símonardóttir kom okkar stelpum yfir á 7. mínútu og var svo aftur á ferðinni á 23. mínútu með góðu skallamarki eftir frábæra fyrirgjöf frá Sunnu Líf Þorbjörnsdóttur. Leli Halldórsdóttir bætti svo við þriðja markinu á 40. mínútu eftir góðan undirbúning Sierru Marie Lelii. Staðan 3-0 í hálfleik.
Elín Björg fullkomnaði þrennu sína á 59. mínútu eftir að hún slapp ein fyrir vörn Augnabliks og Heiða Rakel Guðmundsdóttir skoraði fimmta mark Hauka á 78. mínútu eftir laglegan undirbúning Hildigunnar Ólafsdóttur.
Virkilega góður sigur hjá okkar stelpum í kvöld og endar liðið í öðru sæti síns riðils með 9 stig – með jafn mörg stig og Þróttur R. og Augnablik. Þróttur endar í efsta sætinu út af markatölu.
Áfram Haukar!