Meistaraflokkur Hauka í knattspyrnu er að ganga í gegnum kynslóða skipti á nýju ári og er ætlunin að byggja upp liðið á yngri og uppöldum drengjum að mestu leyti. Það eru því spennandi tímar framundan hjá knattspyrnudeildinni með Luka og Þórhall í brúnni.
Það eru því mikil gleðitíðindi að 5 ungir drengir úr röðum okkar Haukamanna voru valdnir í æfingahópa yngri landsliða KSÍ. Þetta sýnir vel hið góða yngri flokka starf knattspyrnudeildar. Haukar hafa haft mjög færa yngri flokka þjálfara í þeim Frey, Árna, Þórhalli og Luka og eru strákarnir í U21 árs liðinu úr árganginum sem Freyr tók fyrst yfir er hann kom til félagsins og eiga þeir að spila stórt hlutverk á komandi ári í mfl. félagsins.
Félagið og deildin óskar strákunum og þjálfurum þeirra innilega til hamingju með árangurinn og óskum við drengjunum góðs gengis á æfingunum.
Eftirtaldir leikmenn knattspyrnudeildar Hauka hafa verið valdnir í æfingahópa KSÍ:
Kristinn Pétursson er sá yngsti í hópnum og hefur verið boðaður í U17 ára hóp Íslands. Kristinn hefur nú þegar spilað 6 landsleiki fyrir hönd Íslands og fór meðal annars með 16 ára landsliðinu til Kína síðastliðið sumar á Ólympíuleika æskunnar, en í þeim hóp fór einnig annar Haukastrákur að nafni Karl Viðar Magnússon en hann er meiddur um þessar mundir og því ekki leikfær í þetta skiptið.
Í U21 árs hópnum eiga Haukar þrjá drengi, Arnar Aðalgeirsson, Gunnlaug Fannar Guðmundsson og Aron Jóhann Pétursson. Einnig var valinn Björgvin Stefánsson sem uppalinn er í Haukum en spilaði á síðasta sumri með BÍ Bolungarvík. Allir þessir strákar eiga leiki fyrir yngri landslið Íslands. Þessir drengir voru í fyrsta flokki knattspyrnudeildar Hauka sem varð Íslandsmeistari í yngri flokkum og var það einn besti árgangur sem farið hefur í gegn um unglingastarf Hauka.
Framtíðin er björt hjá Haukum og verður spennandi að fylgjast með þessum ungu drengjum sumarið 2015.