Það er stórdagur fyrir Haukafólk í dag en tveir stórslagir í handknattleik verða á boðstólnum. Um er að ræða Hafnarfjarðarslag í N1-deild kvenna og svo síðasta heimaleik Hauka í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.
Stelpurnar byrja í Kaplakrika klukkan 16:00 og mæta liðinu í næst neðsta sæti N1-deildarinnar, FH. FH-liðið er í 7.sæti N1-deildar með 4 stig en þær hafa sigrað HK og Fylki það má þó ekki vanmeta FH-liðið þar sem þeir töpuðu til að mynda einungis með einu marki í síðustu umferð gegn Íslands-og Bikarmeisturum Stjörnunnar.
Haukaliðið hefur aftur á móti verið á fljúgandi siglingu og sigrað hvern leikinn á fætur öðrum, en eftir þriggja marka tap í fyrstu umferð hafa þær ekki stigið feilspor og sigrað fimm leiki í röð og síðast gegn Fram.
FH-liðið hefur verið að styrkja sig að undanförnu og því má búast við hörkuleik í Kaplakrika í dag. Tveir aðrir leikir verða leiknir í N1-deild kvenna í dag, efsta lið deildarinnar, Stjarnan tekur á móti neðsta liði deildarinnar, Fylki. Svo mætast HK og Valur í Digranesinu.
Við hvetjum alla Hafnfirðinga til að mæta í Kaplakrika í dag klukkan 16:00.