Tveir Haukasigrar í Austurbergi – Hanna Guðrún með 27 mörk!

Hanna GuðrúnÍ kvöld fóru fram tveir leikir í Austurbergi. Í báðum leikjunum voru það Haukafólk sem var í heimsókn hjá ÍRingum, fyrst meistaraflokkur kvenna og síðan strákarnir í meistararflokki. Báðir leikirnir voru leikir í 16 liða úrslitum Eimskipsbikarsins.

Það má segja að leikirnir hafi báðir verið frekar ójafnir en báðir leikirnir enduðu með Haukasigri, fyrri leikurinn 52 – 14 og sá síðari 32 – 24. Hanna Guðrún Stefánsdóttir fór á kostum í liði Hauka og skoraði hvorki meira né minna en 27 mörk. Mjög líklegt er að þetta sé met í einum leik í meistaraflokki.

 

Fyrri leikurinn var ójafn frá upphafi. Það var aldrei spurning hvernig leikurinn færi þar sem Haukastelpur skoruðu hvert markið á fætur öðru úr hraðarupphlaupi og voru fljótlega komnar með 20 marka forskot. Og forskotið jókst og jókst og í hálfleik var staðan 30 – 3. 

 

Síðari hálfleikurinn var heldur aldrei nein spurning og héldu stelpurnar áfram að auka forskotið og endaði leikurinn með öruggum sigri Hauka, 52 – 14. Nánast ekkert er hægt að segja um leikinn annað en að tölurnar segja allt sem segja þarf. Hanna Guðrún Stefánsdóttir skoraði 27 mörk í leiknum, í öllum regnbogans litum og fór stelpan hreinlega á kostum. Haukastelpur því komnar í 8 liða úrslit bikarsins.

Síðari leikurinn hófst frekar illa hjá Haukamönnum. Heimamenn skoruðu fyrstu þrjú mörk leiksins og leist Haukamönnum lítið á stöðuna. Haukamenn náðu þó að jafna og komast yfir 5 – 4. Eftir það var aldrei spurning hvort liðið færi með sigur af hólmi því Haukamenn skoruðu hvert markið á eftir öðru og breyttu stöðunni fyrir hlé í 14 – 9.

Eftir leikhlé héldu Haukastrákar áfram að auka forskotið og sigruðu nokkuð örugglega 32 – 24 og eru því einnig komnir í 8 liða úrslit Eimskipsbikarsins.