Það var sannkallaður stórleikur í N1-deild kvenna í hádeginu í dag. En þá mættust Haukar og Stjarnan í Mýrinni, en fyrir leikinn var Stjarnan á toppi deildarinnar en Haukar í því öðru.
Haukar gerðu sér lítið fyrir og unnu að lokum nokkuð örugglega 27-23 og því ljóst að ekkert lið er taplaust lengur í deildinni.
Stjörnustúlkur skoruðu fyrsta mark leiksins en svo komu þrjú hraðarupphlaupsmörk í röð frá Haukum. Stjörnustúlkur svöruðu með þremur mörkum og jafnt var á flestum tölum í fyrri hálfleik, en þegar flautað var til hálfleiks var staðan 13-14 Haukum í vil.
Haukar byrjuðu seinni hálfleikinn afar vel og komust í 17-14 en Stjarnan jöfnuðu í 18-18, en þá keyrðu þær rauðu yfir Stjörnuna og gerðu fjögur mörk í röð og héldu þeirri forystu út allan leikinn, en mest komust Haukar yfir 27-21.
Hanna Guðrún Stefánsdóttir var markahæst leikmanna Hauka með tíu mörk úr tólf skotum, Ramune Pekarskyte sem var fárveik í leiknum stóð fyrir sínu og skoraði átta mörk. Erna Þráinsdóttir sem er að koma meira og meira inn í liðið eftir erfið meiðsli var drjúg á köflum og skoraði fimm mörk. Nínurnar, þær Nína K. Björnsdóttir og Nína Arnfinnsdóttir skoruðu tvö mörk.
Bryndís Jónsdóttir varði 10 skot í leiknum.
Frábær úrslit og ljóst að nú eru Haukar og Stjarnan jöfn á stigum á toppi deildarinnar. Næsti leikur Hauka í deildinni er svo gegn Gróttu á Seltjarnarnesi, 6.desember. Tatjana Zukovska var ekki með í leiknum vegna meiðsla og vonum við að hún nái sér fyrir næsta leik.