Hanna Guðrún til Póllands

Eins og fyrirsögnin segir til um, er Hanna Guðrún Stefánsdóttir leikmaður Hauka á leiðinni til Póllands. Ástæðan er sú að Júlíus Jónasson hefur valið 16 manna landsliðshóp sem mun halda að utan á morgun og leika í undankeppni HM kvenna.

Hanna Guðrún hefur farið gjörsamlega á kostum í N1-deild kvenna í vetur og er langmarkahæsti leikmaður deildarinnar með 72 mörk en næstar henni koma Ramune Pekarskyte leikmaður Hauka og Pavla Plaminkova leikmaður HK með 57 mörk.

Í hópnum sem Júlíus valdi eru þrír markmenn og þrettán útispilarar og þar af eru tveir leikmenn sem leika erlendis, þær Rakel Dögg Bragadóttir og Rut Jónsdóttir en þær leika báðar í Danmörku.

 Fyrsti leikurinn hjá landsliðinu í Póllandi er á miðvikudaginn gegn Lettum.