Stelpurnar í minnibolta 10-11 ára kepptu í úrslitamóti Íslandsmótsins helgina 28.-29. mars.
Þær byrjuðu veturinn í b-riðli í Stykkishólmi og náðu að vinna sér sæti í a-riðli. Liðin í a-riðli voru kannski helst til of sterk fyrir okkur en við fórum í Njarðvík og vorum reynslunni ríkari eftir þá ferð! Næsta mót var á Flúðum í b-riðli, þar sem stelpurnar voru rosa góðar og náðu að vinna sér inn sæti í úrslitamótinu sem fram fór í Keflavík.
Í Keflavík spiluðum við við KR, Grindavík, Njarðvík og Keflavík. Stelpurnar stóðu sig eins og hetjur í þessum leikjum og lögðu sig allar fram…en það er ekki alltaf nóg! Þær töpuðu öllum leikjunum á mótinu, en til marks um hvað þær voru jákvæðar og skemmtilegar á mótinu þá vil ég segja eina sögu J Í leiknum á móti Keflavík þá skoruðum við ekki stig í 1. leikhluta og það var aðeins farin að þyngjast á þeim brúnin. Ég sagði við stelpurnar í leikhléinu að nú myndum við setja okkur 2 markmið: Nú ætlum við að brosa og hafa gaman (þó við séum 12 stigum undir) og við ætlum að reyna að skora…þó það sé ekki nema 1 karfa!
Svo líður á leikinn og við förum að skora nokkrar körfur og allar brosa út að eyrum. Þegar 6 sek. eru eftir af leiknum tekur þjálfari Keflavíkur leikhlé og ég segi við stelpurnar að nú setjum við 1 markmið í viðbót. Við ætlum að halda hreinu þessar 6 sek. Stelpurnar fara inná og ná að halda hreinu og koma svo skælbrosandi útaf vellinum og segja: „Sara….við settum 3 markmið og náðum þeim öllum! Við skoruðum og brostum og þær skoruðu ekki!!“ og svo bættu þær við: „Við verðum bara Íslandsmeistarar á næsta ári!“
Eftir leikinn þá talaði ég við þær um að þetta mót færi bara í reynslubankann hjá þeim, það væri sko ekki sjálfgefið að fá að spila í úrslitum um Íslandsmeistaratitil og að það væri frábært að vera hluti af liði sem er fimmta besta liðið á landinu! Eftir smá umhugsun kom upp úr einni stelpunni: „ Já en Sara, hvernig virkar þessi reynslubanki? Er hægt að taka út úr honum? Er mikið komið í þinn banka??“Þannig að það er ekki hægt að segja annað en að þær hafi skilið allt eftir á gólfinu og fóru allar ánægðar heim, þrátt fyrir að hafa tapað öllum leikjunum og eru reynslunni ríkari fyrir komandi vetur.Takk fyrir veturinn.
Sara P.