4. flokkur karla varð í gær sunnudaginn 19. apríl íslandsmeistarar í 4. flokki karla eftir æsispennandi leik við Gróttu.
Okkar menn sýndu frábæra einbeitingu og sigurvilja eftir að hafa elt Gróttu menn allan leikinn. Staðan var jöfn eftir venjulegan leiktíma en í framlengingu tóku Haukamenn öll völd á vellinum og sigruðu 37 – 35 eftir að hafa náð fimm marka forystu í framlengingunni.
Leikurinn þróaðist annars þannig að Gróttumenn byrjuðu betur og höfðu tveggja til fjögurra marka forskot. Staðan var á tímabili 13-10 fyrir Gróttu en þá vissu hjátrúarfullir menn meðal áhorfenda að leikurinn væri unninn. Mest náðu síðan Gróttumenn fimm marka forsystu 15-10 en með góðum leikkafla í lok fyrri hálfleiks náðu Haukamenn að minnka muninn í 16-14, sem var staðan í hálfleik. Í síðari hálfleik var Grótta með frumkvæðið allt til loka leiksins en með frábærum dugnaði og vel studdir af áhorfendum náðu Haukamenn að jafna leikinn 30-30 og koma leiknum í framlengingu. Í framlengingunni var aðeins eitt lið á vellinum og Haukamenn stóðu upp sem sigurvegarar.
Íslandsmeistarar Hauka eru þeir Brynjólfur Brynjólfsson, Egill Eiríksson, Adam Haukur Bamruk, Alexander Freyr Sindrason, Hergils Þórðarson, Hallur Sigurðsson, Arnar Ingi Guðmundsson, Aðalsteinn Sesar Pálsson og markmennirnir Bjarki Freyr Sigurjónsson og Gunnar Örvar Stefánsson. Þjálfari er Jóhann Guðmundsson og liðstjóri Tryggvi Árnason.
Gunnar Örvar náði þeim einstæða árangri að verða bæði íslandsmeistari í knattspyrnu með 4. flokk karla og nú Íslandsmeistari í handbolta í sama flokki.
Myndir á leiknum eru hægt að nálgast á síðunni handbolti.is.
Haukasíðan óskar strákunum innilega til hamingju með árangurinn.
Myndir: Friðrik Einarsson/handbolti.is