Á morgun, miðvikudag fer fram annar leikurinn í úrslitarimmu Hauka og Vals um Íslandsmeistaratitil karla. Leikurinn fer fram í Vodafone-höllinni að Hlíðarenda og hefst klukkan 19:30. Rútuferðir verða frá Ásvöllum og mun rútan fara frá Ásvöllum ca. 18:30.
Haukar sigruðu fyrsta leikinn í gær með fimm marka mun 29-24 á Ásvöllum og gekk mikið á, í þeim leik. Einar Örn Jónsson hægri hornamaður Hauka fékk að líta beint rautt spjald frá dómurum leiksins fyrir að hafa farið í andlitið á Sigurði Eggertssyni og mun Einar því vera í leikbanni á morgun.
Sigurður Eggertsson rifbeinsbrotnaði svo seinna í leiknum eftir að hafa lent á heimaklettinum sjálfum, Kára Kristjáni Kristjánssyni. Sigurður telur þetta hafa verið vilja verk hjá Kára „Þetta var fullmikið viljandi hjá honum […] Ég sannfærðist enn meira um það eftir að hafa séð þetta í sjónvarpi,“ sagði Sigurður til að mynda við Vísi.is í dag. Sigurður verður ekki með í leiknum á morgun vegna brotsins.
Það er því hægt að bóka það að á morgun verður vel tekið á því og búast má við hörkuleik en Valsarar eru ósigraðir á heimavelli sínum í ár og bíður Haukum því verðugt verkefni að vera fyrsta liðið til að fara með sigur af hólmi þaðan í ár.
Hvetjum strákana áfram á morgun og tökum við titlinum á laugardaginn eftir þriðja leikinn. Stuðningsmenn Hauka voru tvöfald fleiri en stuðningsmenn Vals í gær og við ætlum ekkert að gefa eftir þó að leikurinn sé ekki á Ásvöllum, við vitum öll hvaða lið er stórveldið í íslenskum handbolta og hverjir eiga bestu stuðningsmennina. Stuðningurinn skiptir sköpum.
Valur – Haukar – Vodafone-höllinni – miðvikudag klukkan 19:30
Mynd: Andri Stefan að skora gegn Fram í leik 1 – Friðrik S. Einarsson/handbolti.is