Haukar hafa leikið oftast allra liða í úrslitakeppni Íslandsmótsins frá síðustu aldarmótum. Liðið hefur leikið til úrslita í sex af þeim sjö mótum sem endað hafa með úrslitakeppni, með úrslitaviðureign Hauka og Vals sem nú er í gangi meðtalinni, og það sem meira er, liðið hefur aldrei tapað úrslitaviðureign. Auk þess hefur liðið einu sinni orðið Íslandsmeistari samkvæmt fyrirkomulaginu sem var á síðustu þrjú árin, þ.e.a.s. efsta lið 1. deild varð Íslandsmeistari, og einu sinni hafnað í öðru sæti í þess háttar fyrirkomulagi, þá með jafnmörg stig og Fram sem fagnaði titlinum.
- Fyrsta skipti sem Haukar léku til úrslita í úrslitakeppni eins og við þekkjum frá síðustu árum var árið 2000. Þá lék liðið gegn Fram og fagnaði Íslandsmeistaratitli í Strandgötunni á öðrum degi páska, 24. apríl.
- Haukar léku aftur til úrslita árið eftir, þá gegn KA, en það var fyrsta árið sem Haukar léku á Ásvöllum. Haukar sigruðu þá viðureign sem varð æsispennandi og fór í fimm leiki. Haukar fögnuði sigri á Akureyri í fimmta og síðasta leik einvígisins þann 5. maí 2001.
- Árið 2002 léku Haukar ekki til úrslita en það árið voru það KA og Valur sem áttust við. KA sigraði þá viðureign.
- Árið 2003 kom enn einn Haukasigurinn í Íslandsmótinu. Það árið lék liðið gegn ÍR í úrslitaviðureigninni og sigraði einvígið 3 – 1. Íslandsmeistaratitlinum var fagnað í pakkfullu Austurberginu þann 11. maí 2003.
- Áfram héldu Haukar að sigra Íslandsmótið. Árið 2004 voru mótherjarnir þeir sömu og í ár, einmitt bræðrafélag Hauka, Valur. Haukar fóru fremur létt með þá viðureign, fögnuðu 3 – 0 sigri í einvíginu á heimavelli þann 13. maí 2004.
- Sigurganga Hauka var ekki lokið hér en árið 2005 gerðist sá merki atburður að Haukar fóru taplausir í gegnum úrslitakeppnina. Í úrslitaeinvíginu mættu þeir liði ÍBV og fögnuðu Íslandsmeistaratitlinum á Ásvöllum þann 5. maí 2005. Þess má til gamans geta að þetta ár sigraði kvennalið Hauka einnig ÍBV í úrslitaviðureigninni.
- Árið 2006 voru það Framarar sem fögnuðu Íslandsmeistaratitli eftir sigur í DHL deildinni. Þetta ár var í fyrsta sinn sem Íslandsmeistarar voru krýndir strax eftir deildarkeppni. Haukar voru jafnir Fram að stigum í mótinu en Fram sigraði á betri stöðu í innbyrðis leikjum.
- Það voru Valsmenn sem hömpuðu Íslandsmeistaratitlinum árið 2007. Sama fyrirkomulag var á Íslandsmótinu þetta ár og það síðasta.
- Í fyrra endurheimtu Haukamenn Íslandsmeistaratitilinn eftir glæsilegan sigur í N1 deild karla. Haukar voru með yfirburðarlið í deildinni og fögnuðu Íslandsmeistaratitlinum á Ásvöllum þann 26. apríl 2008.
Það eru því Haukar sem hafa leikið í flestum úrslitaviðureignum auk þess að hafa hampað Íslandsmeistaratitlinum oftast á þessum 9 árum frá aldarmótum. Haukar hafa leikið í sex af sjö úrslitaviðureignum en næsta lið á eftir Haukum eru einmitt mótherjar þeirra í úrslitaviðureigninni í ár, Valur. Valur hefur leikið þrisvar til úrslita á þessum árum, helmingi sjaldnar en Haukamenn. KA kemur þar á eftir með tvær úrslitaviðureignir.
Haukar er eina liðið sem hampað hefur Íslandsmeistaratitlinum oftar en einu sinni á þessari öld. Valur á möguleika á að breyta því í ár, sigri þeir Haukamenn í úrslitaeinvíginu sem nú er í gangi.