Ásgeir Þór Ingólfsson í viðtali – 9 dagar í fyrsta leik

 

Það styttist með hverjum deginum í að Íslandsmótið í knattspyrnu hefjist en nú í dag eru 8 dagar í að 1.deildin hefjist en 9 dagar eru hinsvegar í að Haukar spili sinn fyrsta leik í sumar. Fyrsti leikur Hauka í sumar fer fram á Leiknisvellinum, þar næsta mánudag 11.maí.

Við hér á heimasíðunni ætlum að stytta okkur stundir og á næstu dögum munum við birta viðtöl við nokkra leikmenn meistaraflokks sem og þjálfara liðsins. Fyrst náðum við tali á hinum 19 ára gamla Ásgeiri Þór Ingólfssyni, leikmanni meistaraflokks Hauka, en hann hefur spilað með Haukum frá unga aldri. Honum lýst vel á komandi tímabil og er spenntur fyrir þeim áskorunum sem bíða hans og liðinu í sumar.

 

 

Hvernig hefur undirbúningstímabilið verið í ár, hafið þið fengið út úr því það sem þið vilduð?

Undirbúningstímabilið er búið að vera mjög gott, við höfum æft mjög vel og spilað marga leiki og verið að ná góðum úrslitum. Svo að ég verð að segja að það er það sem við vorum að leitast eftir, þó svo að það hafi verið margt sem hægt var að gera betur sem við erum bara að vinna í núna.

Hvernig leggst svo komandi leiktíð í þig, eru menn  virkilega tilbúnir í þau átök sem bíða þeirra?

Tímabilið leggst mjög vel í mig. Ég veit að Haukarnir eiga eftir að standa sig í sumar, allir vilja ólmir gera betur en síðast sem ég verð nú að flokka undir að allir séu stemmdir. En þetta verður erfið og skemmtileg deild svo að menn ættu nú að vera hungraðir í þetta.

Nokkrir leikmenn hafa yfirgefið félagið í vetur, t.d. fóru Albert Högni Arason og Ómar Karl Sigurðsson til norska 2. deildarliðsins MK, mun liðið sakna þeirra leikmanna sem fóru frá félaginu?

Já við höfum verið að missa marga leikmenn, t.d Óla Jón, Davíð, Edda, Atla (fór til baka til KR eftir lán) svo auðvitað Ómar og Albert. Auðvitað munum við sakna þessarra leikmanna og tel ég það hafa verið mjög slæmt að missa Abba og Ómar til Noregs einum og hálfum mánuði fyrir mót. Þeir voru báðir lykilleikmenn í sínum stöðum. 

Svo hafa þónokkrir gengið til liðs við liðið, hvernig lýst þér á þá leikmenn?

Þeir leikmenn sem við höfum fengið til baka eru Guðjón Lýðsson og Andri Janusson, svo er Stebbi kominn frá Stjörnunni og Árni. Þetta eru allt leikmenn sem geta spilað fótbolta og koma til með að styrkja liðið mjög svo. Ég get ekki lýst yfir ánægju minni að fá strákana aftur í okkar herbúðir. Einnig má ekki gleyma Gunnari sem kom frá Hamri í vetur.

Á hvaða sæti stefnir liðið í sumar? Er raunhæft markmið að ætla sér upp um deild í ár?

Við höfum ekki sest niður og farið yfir sumarið. Að hvaða sæti við stefnum, í fyrra enduðum við í 6. sæti sem ég tel ekkert svakalega gott miðað við hvað við vorum ofarlega eftir fyrri umferðina og vorum í 4 sæti þangað til í síðasta leiknum. Svo að ég myndi segja að topp 5 yrði raunhæft til að byrja með svo getum við bara unnið eftir því hvernig okkur gengur eftir fyrri umferðina. Ef við eigum möguleika á að fara upp þá klárlega eigum við að setjast niður og stefna að því. Ég persónulega trúi því að Haukar geti endað á topp 3 og jafnvel farið upp ef allt gengur að óskum

Í liðinu eru reynsluboltar á borð við Goran Lukic og Þórhall Dan, er mikilvægt fyrir liðið að hafa svona leikmenn innanborðs til að miðla reynslu sinni til annarra
leikmanna?

Það er gríðarlega mikilvægt að halda í þessa menn Tóta og Goran og verð ég að segja það að eftir að Tóti ákvað að taka eitt tímabil í viðbót varð ég mjög glaður að heyra það. Tóti hefur hjálpað mér með allt sem ég þarf hjálp við, bæði sem það er í fótbolta eða utan hans. Svo að hann er góður félagi fyrir mér er hann faðir minn í flokknum. Goran hefur einnig leiðbeint öllum sem honum finnst þurfa að laga svo að hann á nú líka hrós skilið. Þessir menn eru mjög mikilvægir fyrir liðið svo að ég verð að brosa varðandi að þeir séu með okkur í sumar.
 

Svo ein að lokum, hversu mörg mörk stefniru á að skora í sumar?

Ég er búin að setja mér markmið fyrir sumarið sem ég ætla ekki að tala um hérna. Ég stefni á að skora 10 mörk í sumar þó svo að mér finnist ekkert skipta máli hver skorar mörkin, bara að liðið sé að spila vel og að við séum að vinna leiki, þá er ég ánægður.