Nú er vika í fyrsta leik hjá meistaraflokk karla í knattspyrnu en liðið mætir Leikni frá Reykjavík í fyrstu umferð. Leikurinn er á Leiknisvelli og hefst leikurinn klukkan 20:00. Á laugardaginn síðasta fengum við Ásgeir Þór Ingólfsson til að svara nokkrum spurningum og nú í dag mun Hilmar Trausti Arnarsson gera sama leik. Hilmar Trausti er uppalin hjá Haukum og hefur alla sína tíð spilað fyrir Hauka, að undanskyldu einu ári er hann lék með Keflavík og Leikni Reykjavík.
Hilmar Trausti hefur verið fyrirliði Hauka í vetur, en aðalfyrirliði liðsins Þórhallur Dan Jóhannsson hefur verið meiddur í vetur. Hilmar er 23 ára, miðjumaður og er gríðarlega mikilvægur leikmaður í liðinu og vonandi að hann blómstri í sumar, en hann hefur samt sem áður átt við meiðsli að stríða undanfarin ár sem hafa verið að trufla hann.
Gefum Hilmari Trausta orðið:
Jæja nú er undirbúningstímabilið svona nokkurn veginn búið hjá ykkur, eru þið ánægðir með frammistöðu ykkar í Lengjubikarnum og í æfinaleikjunum?
Frammistaðan hefur verið upp og ofan hjá liðinu. Æfingaleikirnir í upphafi árs og fram að Lengjubikar voru góðir og liðið að spila flottan bolta. Frammistaðan í fyrstu fjóru leikjunum í Lengjubikarnum var vel ásættanleg, óskiljanlegt jafntefli við Víking Ó þar sem við vorum með yfirburði á vellinum allan leikinn, sigur á ÍBV og svo tvö töp með minnsta mun gegn ÍA og Þrótti þar sem við vorum síst lakari aðilinn. Svo spiluðum við tvo æfingaleiki fyrir norðan sem báðir voru mjög slakir og í kjölfarið á þeirri ferð seinasti leikurinn í Lengjubikarnum við hitt Hafnarfjarðarliðið þar sem liðið spilaði líka illa.
Nú hafið þið misst nokkra lykilmenn og hafið fengið nokkra aðra leikmenn inn í leikmannahópinn, hvernig lýst þér á þær breytingar sem hafa verið gerðar á leikmannahópnum?
Auðvitað höfum við misst nokkra sterka leikmenn. En ég hef fulla trú á því nýju leikmennirnir komi til með að fylla í þeirra skörð auk þess sem ungu strákarnir eru að koma sterkir inn sem er bara jákvætt. Hópurinn í dag samanstendur af góðri blöndu af ungum og frískum leikmönnum og svo eldri og reyndari leikmönnum.
Haukaliðið er mjög mikið byggt á uppöldum Haukamönnum þar á meðal þér, telur þú það ekki gott upp á liðsandann að gera? Að allir leikmenn liðsins séu með Haukahjartað á réttum stað?
Auðvitað er það mikill kostur þegar þetta margir leikmenn eru uppaldir hjá félaginu. Það er mjög góður andi innan hópsins og er það ekki síst því að þakka hvað við strákarnir í hópnum þekkjumst vel. En auðvitað tökum við vel á móti nýjum leikmönnum svo þeir verði fljótir að aðlagast. Að hafa Haukahjartað á réttum stað getur skipt sköpum og það smitar út frá sér til hinna leikmannanna. Svo er það auðvitað hvatning til yngri flokka félagsins og sjá hversu margir Haukastrákar hafa fengið sénsinn og náð að fóta sig í meistaraflokknum.
Nú voruð þið í toppbaráttunni lengi vel í 1.deildinni í fyrra en misstuð dampinn í lokinn, hvert er þá markmið Hauka núna í sumar?
Við höfum nú ekki ennþá sest niður og sett okkur markmið sem lið fyrir tímabilið, en það hlýtur að vera að gera betur en í fyrra.
Hvað telur þú að sé ykkar helsti styrkleiki ?
Númar eitt, tvö og þrjú samheldinn hópur sem er tilbúinn að berjast fyrir hvorn annan inni á vellinum.
En á móti, hver er þá veikleiki liðsins?
Óstöðugleiki. Hef samt trú á því að þessum galla verði breytt í styrkleika í sumar stöðugleika.
Í Haukaliðinu eru þið þrír sem heitið Hilmar, hvað eruði oftast kallaðir? Hefur einhverntímann orðinn einhver misskilningur sem þú manst eftir vegna nafna ykkar ?
Trausti, Emils og Geir. Ég man ekki eftir neinum misskilningi nei en ég gæti trúað því að þetta hafi ollið misskilningi hjá mörgum strákum upp yngri flokkana og svo hjá nýjum leikmönnum í meistaraflokknum án þess þó að ég hafi fengið að heyra einhverjar sögur. En það var samt fyndið þegar við Hilmararnir vorum í Þýskalandi seinasta haust ásamt Snáknum(Sigga liðsstjóra) að heimsækja Þjóðverjana sem spiluðu með okkur seinasta sumar. Þegar við strákarnir kynntum okkur fyrir nýju fólki þá var fólkið alltaf jafn hissa á að heyra að við þrír hétum það sama. Við útskýrðum það bara fyrir þeim með þeim hætti að það væru bara tvö karlkynsnöfn á Íslandi Hilmar og Siggi.
Það er nú samt svolítið magnað að þrír uppaldir leikmenn nánast jafn gamlir sem allir heita Hilmar(Emils og Trausti ´86 og Geir ´85) hafi spilað saman upp alla yngri flokkana og svo núna með meistarflokknum!
Nú hafa mikil meiðsli verið að hrjá hópinn, hvernig er standið á hópnum nú ca. tveimur vikum fyrir mót ?
Já það er rétt, eftir æfingaferðina norður hrundu menn niður hver á fætur öðrum. En mér sýnist að menn séu allir að koma til enda stutt í mót og vilja allir vera klárir fyrir fyrsta leik. Það lítur út fyrir að það ætli að takast og þjálfarinn hafi úr öllum hópnum að velja í upphafi móts.
Svo ein að lokum, nú ert þú skotmaður góður og settir nokkur stórglæsileg mörk í fyrrasumar, munu stuðningsmenn Hauka ekki fá að sjá þig þenja netmöskvana úr svoleiðis spyrnum aftur í sumar?
Ég ætla innilega að vona það. Það komu fjögur mörk í fyrra, eitt C.Ronaldo mark(VÍTI) og svo þrjú Gerrard/Torres mörk(Skot fyrir utan teig/aukaspyrnu) Stefnan verður sett á að setja fleiri í sumar og er ég vongóður um að það takist.
Næsti maður sem mun tjá sig, er enginn annar en Hilmar Rafn Emilsson. Og næstur á eftir honum verður svo þriðji Hilmarinn í liðinu, Hilmar Geir Eiðsson… gott Haukafólk, sumarið er tíminn!