Haukar sigruðu fyrsta leikinn á tímabilinu

Fyrsti leikurinn hjá Haukum í 1.deildinni í sumar var leikinn í Egilshöllinni í kvöld, þegar Haukar og Leiknir Reykjavk mættust. 

Haukar fóru með sigur úr bítum 2-0 með mörkum frá Álftnesingunum, Guðjóni Pétri Lýðssyni og Andra Janusson í upphafi seinni hálfleik.

Lítið sem ekkert gerðist í leiknum í fyrri hálfleik fyrir utan stangarskot frá Guðjóni Pétri úr aukaspyrnunni. En Haukavörnin með Goran Lukic og Þórhall Dan fremsta í flokki var traust að vanda og fengu Leiknismenn ekkert færi allan leikinn. 

Staðan í hálfleik var 0-0 en Pétur Örn Gíslason þurfti að yfirgefa völlinn í fyrri hálfleik eftir að lent í samstuði á einum Leiknismanninum. En hann fékk gott höfuðhögg.

Seinni hálfleikurinn byrjaði rólega en Guðjón Pétur skoraði fyrsta mark leiksins á 51.mínútu úr aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi Leiknismanna, algjört draumaskot en hægt er að setja spurningarmerki við markvörð Leiknismanna.

Eftir þetta urðu Haukarnir öflugri og fengu nokkrar ágætis sóknir og úr einni þeirra skoraði Andri Janusson en hann fékk góða stungusendingu frá Hilmari Rafni Emilssyni. Andri kláraði færið mjög vel og kom Haukum 2-0 yfir.

Leiknismenn reyndu hvað þeir gátu til að minnka muninn en komust ekkert áleiðis gegn sterkri vörn Haukamanna. Garðar Ingvar Geirsson varamaður Hauka fékk svo algjört draumafæri þegar hann slapp einn innfyrir vörn Hauka en markvörður Leiknismanna varði mjög vel. Lítið sem ekkert gerðist eftir þetta og  2-0 sigur Hauka því staðreynd í kvöld.

Haukaliðið í kvöld:
Amir Mehica, Jónas Bjarnason, Þórrhallur Dan Jóhannsson, Goran Lukic, Pétur Örn Gíslason(Gunnar Ásgeirsson), Úlfar Hrafn Pálsson, Ásgeir Þór Ingólfsson, Guðjón Pétur Lýðsson, Hilmar Geir Eiðsson(Garðar Ingvar Geirsson, Andri Janusson(Stefán Daníel Jónsson), Hilmar Rafn Emilsson.

Ónotaðir varamenn: Þórir Guðnason, Jónmundur Grétarsson.

Næsti leikur liðsins er á Ásvöllum næstkomandi laugardag þegar Haukar taka á móti Fjarðabyggð sá leikur hefst klukkan 14:00.

Mynd: Guðjón Pétur Lýðsson skoraði fyrsta mark Hauka á tímabilinu.