Á morgun taka Haukamenn á móti Leiknismönnum á Ásvöllum en flautað verður til leiks kl. 20.00 en frítt er inn fyrir félaga í Haukar í horni. Um að gera að koma að styðja þá rauðu en þeir eiga mjög gott tækifæri á að komast upp í efstu deild.
Haukar unnu fyrri leikinn í Egilshöllinni með tveimur mörkum gegn engu þar sem Guðjón Pétur Lýðsson og Andri Janusson sáu um markaskorunina. Þar var um jafnan leik að ræða en Haukamenn ávallt skrefinu á undan Breiðhyltingum.
Haukar verða heldur betur að sýna allt aðra frammistöðu en sást í síðasta leik gegn Þór þar sem að leikurinn endaði með 1-2 sigri Akureyringa. Haukar eru sem stendur í öðru sæti með 20 stig rétt eins og HK sem er í þriðja sætinu en með slakari markatölu.
Leiknismenn hafa átt frekar stöðugt tímabil en þeir sitja í sjöunda sæti með 13 stig. Þeim var spáð í neðri hlutanum í deildinni en þeir gerðu jafntefli í síðasta leik 1-1 gegn Aftureldingu í Mosfellsbæ en Haukar gerðu einnig jafntefli gegn Aftureldingu fyrr í sumar 1-1. Það er þó ekki bókað mál að Haukamenn muni sigra og verða þeir að leggja sig alla fram í þetta verkefni.
Búast má við fallegu veðri á Ásvöllum á morgun og því alveg kjörið tækifæri að koma og fá smá lit á húðina á meðan að Haukamenn leika listir sínar.
Mynd: Ásgeir Ingólfsson og Úlfar Hrafn Pálsson ætla sér lítið annað en sigur á morgun – stefan@haukar.is