Stúlknaflokkur Hauka í körfu tók þátt í frábæru unglingalandsmóti á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina. Mikill fjöldi liða mætti nú til keppni og voru keppendur í körfubolta alls um 500 víðsvegar að af landinu sem er meira en tvöföldun frá síðasta landsmóti. Alls voru spilaðir 184 leikir í ár samanborið við 84 leiki á síðasta ári.
Haukastelpunar spiluðu 5 leiki unnu þrjá leiki örugglega á móti Kormáki, Fjölni og Keflavík B, en töpuðu tveimur naumt á móti Snæfelli með 2 stigum og Keflavík með 6 stigum þar sem úrslit réðust á síðustu mínútum í báðum leikjum eftir að Haukar höfðu verið yfir í hálfleik. Stelpunar spiluðu mjög vel í öllum leikjunnum og hefðu jafnvel unnið mótið ef þær hefðu allar verið heilar því eftir 8 mínútna leik í fyrsta leiknum meiddist Árnína og voru stelpurnar einungis 6 það sem eftir var mótsins.
Davíð þjálfari Ásgrímsson stýrði liðinu eins og herforingi alla helgina en auk hans veittu þær Sara Pálma og Guðrún Ámunda stelpunum góð ráð og kvöttu þær áfram af bekknum.
Við foreldrarnir studdum stelpurnar eftir megni og var einstaklega gaman fyrir okkur að sjá hversu mikill samhugur og baráttu andi ríkti í hópnum utan vallar sem innan. Þá vil ég fyrir hönd okkar foreldranna þakka sérstaklega Davíð Ásgrímssyni fyrir að gefa sér tíma í sínu sumarfríi til að vera með okkur.
Öll aðstaða á Sauðárkróki var til fyrirmyndar og allur aðbúnaður og skipulag heimamanna mjög góður. Sem dæmi þá röskuðust tímasetningar á byrjun leikja ekki þrátt fyrir gríðarlegan fjölda leikja og að þrír leikir væru spilaðir samtímis. Allar uppákomur voru vel skipulagðar af heimamönnum og öll umgjörð um mótið til fyrirmyndar.
Að endingu vil ég hvetja þjálfara og foreldra til að stuðla að því að fleiri lið frá Haukum taki þátt á næsta unglingalandsmóti því með því móti stuðlum við m.a. að því að auka samheldni og baráttuanda innan flokka okkar. Þá vil ég þakka öllum Hauka félögum sem þátt tóku á liðnu unglingalandsmóti og vonast eftir að við verðum öll á því næsta sem haldið verður í Grundarfirði.
Samúel Guðmundsson