Haukar komust aftur upp í 2.sæti 1.deildar í dag með sigri á botnliði Víkinga úr Ólafsvík. Haukar skoruðu þrjú mörk en gestirnir eitt. Garðar Ingvar Geirsson hélt upptæknum hætti frá síðasta leik og skoraði tvö mörk og hefur í heildina skorað sjö mörk í deildinni í sumar. Varnarmaðurinn Jónas Bjarnason skoraði síðan þriðja mark Hauka, en þetta var hans fyrsta mark fyrir Hauka í meistaraflokki.
Haukar byrjuðu leikinn með látum og skoruðu strax á 6. mínútu leiksins, þar var að verki Garðar Ingvar Geirsson með flottum skalla eftir sendingu frá Jónasi Bjarnasyni. Leikurinn róaðist mikið eftir þetta en Haukar héldu boltanum allan hálfleikinn og Guðjón Pétur Lýðsson átti nokkur ágætis skot fyrir Hauka en þau rötuðu ekki á markið. Eiríkur Viljar Kúld kom inn á fyrir Hilmar Rafn Emilsson sem meiddist undir lok fyrri hálfleiks en þetta var fyrsti leikur Eiríks fyrir Hauka síðan hann kom til liðsins á láni frá FH.
Staðan var 1-0 Haukum í vil þegar Gunnar Sverrir Gunnarsson, ágætur dómari leiksins, flautaði til hálfleiks.
Haukar byrjuðu síðari hálfleikinn eins og þann fyrri og uppskáru mark á 54. mínútu og aftur var það Garðar sem skoraði. Hilmar Trausti átti góða fyrirgjöf inn í teig gestanna sem Pétur Ásbjörn Sæmundsson flikkaði áfram til Garðars sem tók við boltanum og hamraði honum svo í bláhornið, óverjandi fyrir Einar Hjörleifsson í marki Ólafsvíkinga.
Aðeins 4. mínútum síðar var staðan orðin 3-0 Haukum í vil og það var Jónas Bjarnason af öllum mönnum sem skoraði þriðja markið og það var af dýrari gerðinni. Hann fékk þá boltann nokkrum metrum fyrir utan vítateig gestanna og hamraði boltanum upp í samskeytin með vinstri fæti, frábært marki hjá Jónasi og hann mun líklega seint gleyma þessu marki.
Eftir þetta slökuðu Haukarnir full mikið á og gestirnir gengu á lagið. Víkingar minnkuðu svo muninn á 89. mínútu en þar var að verki Brynjar Gauti Guðjónsson, efnilegur leikmaður Ólafsvíkinga. Víkingar voru svo nálægt því að minnka muninn í 3-2 en Amir varði vel í markinu og kom í veg fyrir að fleiri mörk yrðu skoruð í leiknum.
Haukar fögnuðu því 3-1 sigri og eru því komnir aftur í annað sæti 1.deildar með 28 stig, tveimur stigum meira en HK sem sitja í 3.sætinu og fjórum stigum minna en Selfyssingar sem tróna á toppi deildarinnar með 32 stig.
Eiríkur Viljar Kúld og Ernad Mehic spiluðu sína fyrstu leiki með Haukum og stóðu sig með prýði. Eins og fyrr segir kom Eiríkur inn á rétt fyrir hálfleik og spilaði allan seinni hálfleikinn sem framliggjandi miðjumaður. Ernad spilaði síðustu 20 mínútur leiksins í stöðu miðvarðar eftir að hafa komið inn á fyrir Pétur Ásbjörn. Þórhallur Dan fyrirliði kom svo aftur inn í byrjunarliðið en hann hefur verið frá vegna meiðsla og veikinda í undanförnum leikjum.
Næsti leikur liðsins er síðan upp á Skipaskaga á fimmtudaginn næstkomandi klukkan 19:00. Haukar eru eins og fyrr segir í 2.sæti deildarinnar en mikil barátta er um laussæti í Pepsi-deildinni að ári og er leikurinn á fimmtudaginn gríðarlega mikilvægur í þeirri baráttu fyrir Hauka. En það mætti eiginlega segja að allir leikirnir sem eftir eru, verða mikilvægir fyrir Hauka. Við hvetjum því alla til að fjölmenna á Skagann og sjá Haukana leika gegn ÍA.
Mynd: Jónas Bjarnason skoraði sitt fyrsta meistaraflokks mark á ferlinum í dag og það með vinstri.
– Skrifað af: Þórarni Jónasi Ásgeirssyni