Ragnheiður Theodórsdóttir hefur ákveðið að snúa aftur í rautt og mun leika með Haukaliðinu á næstu leiktíð en hún kom upphaflega til liðsins frá Keflavík 2004 en hætti 2006. Eftir að hún yfirgaf Hauka spilaði hún með Breiðablik í IE-deildinni. Er ljóst að hún er góð viðbót við hópinn sem er fyrir.
Mynd: Ragnheiður kemur í Hauka á ný – breiðablik.is
Tímabilið 2005-2006 var Ragnheiður með 5,8 stig að meðaltali í leik en einnig tók hún 32 fráköst, var með 24 stoðsendingar og stal 21 bolta á þeim 290 mínútum sem hún spilaði.
Þetta ár varð hún Deildar-, Íslands- og Powerademeistari með liðinu og árið á undan Bikarmeistari.
Henning Henningsson þjálfari liðsins sagði að það væri mjög gott að fá Ragnheiði í hópinn og aftur í Hauka. „Ragga er mikill keppnismaður sem leggur sig mikið fram á æfingum og í leikjum. Ég hef líka unnið með henni áður og þekki hana því vel og það er ljóst að hún verður góð viðbót við sterkt Haukalið.”
Körfuknattleiksdeild Hauka býður Ragnheiði velkomna enn á ný.