Þórhallur Dan Jóhannsson fyrirliði Hauka er ólýsandi persóna og algjör happafengur fyrir Hauka þegar þeir fengu hann til liðs við sig fyrir sumarið 2007 en þá voru Haukar í 2.deild og kom það fólki í opna skjöldu þegar tilkynnt var að Þórhallur Dan Jóhannsson fyrrum leikmaður KR, Fylkis og Fram væri á leið í Hauka. En nú er þriggja ára ævintýri Þórhalls með Haukum að ljúka en hann stefnir á að ljúka ferlinum með því að tryggja sér og Haukum upp um deild. Við fengum Þórhall til að svara nokkrum spurningum um framtíðina hans sem og Haukaliðið. En við spurðum hann fyrst að því hvort að leikurinn á laugardaginn væri sá síðasti fyrir Hauka á Ásvöllum.
„Það má búast við því að þetta sé síðasti leikurinn minn á Ásvöllum. Ég er búinn að gefa það út í fjölmiðlum að þetta sé síðasta árið,“ sagði Þórhallur en hvað tekur við ? Mun hann starfa eitthvað áfram hjá Haukum en hann er einmitt að þjálfa 3.flokk karla með Árna Hjörvari Hilmarssyni og þegar þetta er skrifað eru flokkurinn kominn í undanúrslit í Íslandsmótinu en 3.flokkurinn spilar gegn Keflavík á fimmtudaginn,
„Það er ekkert farið að ræða það neitt sérstaklega, ég ætla allavegana fyrst að taka mér frí frá fótbolta í einhverjar vikur og einhverja mánuði síðan verður það bara skoðað. Það getur vel verið en það getur einnig vel verið að ég taki mér bara gott frí og kem svo endurnærður til baka einhverntímann seinna.“
En hvað með sæti í Úrvalsdeild á næsta ári, yrði það ekki hrikalega svekkjandi að ná ekki takmarkinu um að komast í Pepsi-deildina úr því sem komið er ?
„Þetta er auðvitað í okkar höndum og það vantar ekkert mikið upp á. Það er búið að hlaupa 40 km af 42 km og endaspretturinn er reyndar oft mikilvægur en við stefnum auðvitað bara á það að vinna þessa tvo leiki og koma okkur upp um deild.“
„Það er líka ljúft að klára ferilinn með því að koma Haukum upp í Úrvalsdeild sem var stefnt að þegar ég kom hingað 2007 en þá eins og ég hef sagt nokkrum sinnum, var félagið í molum en þeir hafa verið að safna liði á mjög klókan hátt með því að fá unga Haukastráka til baka sem voru farnir annað og þetta hefur gengið ótrúlega vel. Þannig það væri óskandi að við gætum klárað tímabilið með því að koma liðinu upp.“
Við báðum Tóta eða Kónginn eins og hann er stundum kallaður af stuðningsmönnum Hauka, að lýsa Knattspyrnufélaginu Haukum aðeins og lýst því aðeins að hafa komið til Hauka eftir langan og farsælan feril með liðinu í efstu deild.
„Þetta er svona svipað félag og Fylkir sem er mitt uppeldisfélag. Það er mikil nánd og maður getur talað við alla og þekkir alla hérna, þetta er lítið og sætt félag. En Haukar félagið sem slíkt eru mikið mikið stærra en maður gerir sér grein fyrir, þegar maður kemur inn í klúbbinn þá sér maður hve gríðarlega stærð er á þessu félagi og það þurfti bara að smita þessa velgengni úr körfunni og handboltanum í fótboltann og mér sýnist það vera að gerast. Við erum komnir með kvennaliðið í Úrvalsdeild og það væri óskandi ef við gætum verið með tvö lið í Úrvalsdeild í knattspyrnu að ári,“ sagði Þórhallur Dan Jóhannsson að lokum og vonum við auðvitað að ósk hans mun rætast að klára ferilinn með því að fara upp með Haukum.
Við hvetjum alla til að fjölmenna á laugardaginn á síðasta heimaleik Hauka á tímabilinu, en hver veit nema Haukar nái að tryggja sér sæti í Pepsi-deildinni á laugardaginn ?
Leikurinn hefst klukkan 14:00.