Það hefur ekki farið framhjá neinum Haukamanni að stelpunum í fótboltanum tókst að sigra 1. deildina í úrslitaleik á móti FH um daginn og þar með að tryggja sér sæti í Pepsi deildinni að ári. Við á heimasíðunni höfðum því samband við Tinnu Mark leikmann liðsins og spurðum hana nokkurra spurninga út í sumarið.
Hvernig er tilfinningin?
Hún er eins og þegar ég var pæjumótsmeistari í fyrsta skiptið. Get varla hætt að brosa 🙂
Fyrir tímabilið hver voru markmið liðsins?
Stefnan var tekin á Pepsideildina alveg frá byrjun og er það ekki leiðinlegt að hafa náð því markmiði auk þess að sigra deildina 🙂
Hvert var þitt markmið fyrir sumarið?
Markmiðið mitt fyrir sumarið var að fara í alla leiki til að vinna þá, hafa alveg ótrúlega gaman og að komast í gegnum heilt tímabil án þess að meiðast 😉
Hver var sætasti sigurinn í sumar?
Klárlega sigurinn á Selfossi í úrslitakeppninni! Ég er ennþá að fá skammir frá foreldrum stelpnanna fyrir að hafa gert þetta svona óþarflega spennandi. Ég hafði samt engar áhyggjur af þessu, við vorum bara of góðar til að fara ekki áfram.
Hvernig leggst í þig næsta sumar og hvernig að staðan á þér?
Mér líst gríðarlega vel á Hauka næsta sumar í Pepsi-deild kvenna og karla. Fyrir þetta tímabil var ég búin að ákveða að þetta fótboltasumar yrði mitt síðasta í bili en eftir að hafa unnið bikar og fengið svona fína medalíu þá þarf maður að hugsa sig aðeins betur um 🙂
Hvað þarf liðið að gera til þess að geta fest sæti sitt í Pepsi deildinni?
Það er mjög mikill munur á úrvaldsdeild kvenna og 1. deild kvenna á Íslandi. Það þarf því að byggja ofan á ungu og efnilegu leikmennina sem til eru í Haukum og styrkja liðið með eldri og reynslumeiri leikmönnum. Svo þarf bara að æfa eins og hundar í vetur og vera í fantaformi í maí á næsta ári.
Hver er flippaðasti leikmaðurinn í liðinu?
Eva Jenný. Hún er alltaf eitthvað að flippa í runnunum við Hallgrímskirkju.
Hver er efnilegasti leikmaðurinn í liðinu?
Haukaliðið er náttúrulega skipað mjög ungum leikmönnum og eru þær allar gríðarlega efnilegar eins og sést best á árangri 2. flokks í sumar. En ef ég á að velja þá held ég að það séu Anna Margrét og Jóna Sigríður.
Lumar þú á góðu ráði handa ungum leikmönnum?
Vera duglegar að æfa og leggja sig ALLTAF 100% fram, hvort sem það er á æfingu eða í leik.
Hvernig á svo að eyða vetrinum?
Ég er að ljúka B.S. námi í sjúkraþjálfun í Háskóla Íslands í vor svo ætli veturinn fari ekki meira eða minna í það. Svo dettur maður í ísbúðina öðru hverju með lillunum 🙂