Tveggja marka tap í Póllandi

Eins og greint var frá á síðunni í gær fór meistaraflokkur karla til Póllands í gær og léku í dag gegn pólska liðinu, Wisla Plock. Til að hafa langa sögu stutta þá fór Wisla Plock með sigur af hólmi 30-28. En staðan í hálfleik var 15-12 Pólverjunum í vil.

Sigurbergur Sveinsson var markahæstur í liði Hauka með 8 mörk en Daninn Lars Møller Madsen gerði 5 mörk fyrir Wisla Plock og með þeim mörkum varð hann markahæsti leikmaður þeirra í leiknum í dag.

 

Næstur í liði Hauka á eftir Sigurbergi var Pétur Pálsson með 4 mörk og þeir Elías Már Halldórsson og Björgvin Hólmgeirsson gerðu 3 mörk hver. Hornamennirnir Freyr Brynjarsson og Einar Örn Jónsson skoruðu 2 og unglingalandsliðsmennirnir, Heimir Óli Heimisson og Guðmundur Árni Ólafsson skoruðu 1 markið hvor.

Í viðtali við Vísir.is var Aron Kristjánsson þjálfari Hauka gríðarlega ánægður með einungis tveggja marka tap og eru Haukar í góðum séns að komast áfram en seinni leikurinn fer fram á Ásvöllum næstkomandi laugardag. „Þetta var bara virkilega flottur leikur hjá okkur gegn gríðarlega sterku pólsku liði á erfiðum útivelli. Þetta voru gífurlega góð úrslit fyrir okkur byggir upp hörkuleik á Ásvöllum um næstu helgi,“ sagði Aron Kristjánsson við Vísi en hægt er að sjá viðtalið í heild sinni hér.