Hafnarfjarðarslagur í Kaplakrika á mánudaginn

HaukarÁ mánudaginn fer fram Hafnarfjarðarslagur í N1-deild karla þegar Haukar og FH mætast í Kaplakrika. Leikurinn hefst klukkan 19:30 en að sjálfsögðu ráðleggjum við öllum að mæta tímanlega og mynda stemmingu fyrir leikinn.

Eins og flest allir ættu að vita hafa Haukar farið illa með nágranna sína í síðustu leikjum og ef fer sem horfir er ekki von á neinni breytingu á því.

Liðin hafa mæst tvisvar áður á þessu tímabili, einu sinni í N1-deildinni og einu sinni í Eimskipsbikarnum. Þegar liðin mættust í deildinni fóru Haukar með sigur úr bítum með þremur mörkum, 29-26 eftir að hafa verið undir í fyrri hálfleik.

Í bikarnum var enn meiri spenna því leikurinn var tvíframlengdur og að vanda fóru Haukar með sigur úr þeim leik, en ekki hvað?

Nú er komið að því að sýna það enn og aftur hvaða lið er besta handknattleikslið á Íslandi og einnig að sýna hverjir eiga bestu stuðningsmennina.

Mætum í rauðu, mætum snemma og styðjum strákana til sigurs, enn og aftur.

Allir á völlinn – Áfram Haukar.