Haukar og Stjarnan hafa oft eldað grátt silfur í kvennaboltanum. Á því var engin breyting í leik þessa tveggja liða í 3. flokki en þau áttust við á Ásvöllum í kvöld. Leikurinn var jafn og spennandi þótt Stjarnan hefði lengst af forystu. Með liðunum tveimur leika þó nokkrar stelpur sem gegna vaxandi hlutverkum í meistaraflokkum liðanna, auk fjölmargra væntanlegra meistaraflokksleikmanna, og var hart tekist á um sigurinn. Leikurinn skartaði mörgum mörkum þrátt fyrir að markverðir beggja liða væru að verja ágætlega á köflum, þar af mörg hraðaupphlaup. Topplið Stjörnunnar fór með sigur af hólmi 33-34 en Haukastelpur voru nærri því að jafna metin í síðustu sókn sinni.
Þetta var fyrsta tap Haukaliðsins á nýju ári en fyrr í vikunni gerðu þær jafntefli í hörkuleik í Eyjum. Í janúar unnu þær svo Gróttu, ÍR 1 og FH. Haukastelpurnar eru því sem stendur í þriðja sæti deildarinnar með 13 stig eftir 11 leiki, þremur stigum á eftir HK 1 sem hefur leikið einum leik fleira en Stjarnan trónir nokkuð örugglega á toppnum með fullt hús stiga, 22 stig eftir 11 leiki.