Auðveldur sigur Hauka

Haukar unnu stórsigur á Njarðvík, 80-41, þegar liðin mættust á Ásvöllum fyrr í kvöld. Sigur heimastúlkna var aldrei í hættu og í raun aldrei spurning hvoru meginn sigurinn mundi lenda. Henning Henningsson þjálfari gat leift sér að dreifa spilatímanum milli leikmanna og komst nánast allt Haukaliðið á blað. Njarðvíkingar mættu án erlends leikmanns en hann var sendur heim eftir bikarleik liðanna á dögunum.

Njarðvík skoraði fyrstu þrjú stig leiksins og var það í raun eina skiptið sem að þær leiddu leikinn. Haukar komust í 5-3 og Njarðvíkingar jöfnuðu. Eftir það tóku Haukar öll völd á vellinum, breyttu stöðunni í 21-5 og enduðu með að vera 23-8 yfir eftir fyrsta leikhluta.

Haukar héldu áfram að keyra yfir lið Njarðvíkur og leiddu í hálfleik með 19 stigum, 43-24. Það var ekki fyrr en í fjórða leikhluta sem að Njarðvíkurliðið náði að hanga í heimastúlkum en sá leikhluti var nokkuð jafn eftir að Haukar höfðu kjörsamlega gert út um leikinn í þriðja með því að ná mest 43 stiga mun og vinna leikhlutann 23-6.

Kiki Lund var stigahæst í stórsigri Hauka með 17 stig, 5 fráköst og henni næst var Bryndís H. Hreinsdóttir með 14 stig. Heather Ezell gerði aðeins 11 stig, tók 7 fráköst og stal 6 boltum á þeim 23 mínútum sem hún spilaði.