Við höldum áfram að yfirheyra fyrrum bikarmeistara Hauka. Í þetta skiptið heyrðum við í Pálínu M. Gunnlaugsdóttur sem núna spilar með Keflavík og mun mæta sínum gömlu félögum á laugardaginn. Pálína varð meistari með liðinu 2005 og 2007 en ætlar að deila með okkur sinni upplifun af titlinum 2007.
Hvernig upplifun var það að verða bikarmeistari? Var hún eins og þú bjóst við?
Það er æðisleg tilfinning að verða bikarmeistari. Ég á mjög erfitt með að lýsa því með orðum hvernig það er. En þetta er virkilega skemmtilegur titill og algjör forréttindi að komast í Höllina. Þetta er einn af stóru bikurunum sem við berjumst um og það er rosalega erfitt að koma í Höllina óeinbeittur þegar maður veit hvað bíður manns ef maður vinnur.
Upplifunin við að verða bikarmeistari var svona bæði og. Það er rosalega gaman að vinna en spennufallið og þreytan eftir leikinn er líka rosaleg, maður býst eiginleg ekki við því. En tilfinningin er ólýsanleg.
Segðu okkur frá því helsta sem þú manst frá úrslitaleiknum 2007.
Ég man rosalega vel eftir leiknum. Ég var viss um allan tímann að við myndum vinna. Svo man ég þegar Keflavík var að komast yfir, þá fékk ég þessa skrítnu tilfinningu að við myndum tapa ef við færum ekki að spila betri vörn, því að sóknin var svo sem ekkert vandamál, sérstaklega ekki þegar þú ert með Helenu Sverrisdóttir þér við hlið. Ég man svo mikið eftir því þegar ég ÆTLAÐI að stela boltanum þegar um fjórar mínútur voru eftir og það tókst næstum því í einni af síðust sóknum Keflvíkinga. Við fengum körfu á okkur í staðinn minnir mig og þá hugsaði ég að ég væri ekki búin, langt því frá, ég ætlaði að sýna að ég væri líka góð í körfu. Í þar næstu sókn stal ég boltanum, brunaði upp völlinn, skoraði og fékk vítaskot að auki. Ég man mest eftir því þegar Helena kom til mín og kyssti mig á kinnina eftir að ég hafi skorað.
Það var tekið leikhlé strax í kjölfarið á þessu og ég man eftir að hafa horft í augun á Svanhvíti (S. Skjaldardóttur) og hún horfði á mig tilbaka með hræðslusvip, ég blikkaði hana til að róa hana aðeins niður, voða töffari sko. haha…
Hvernig leið þér fyrir leik?
Fyrir leikinn leið mér rosalega vel. Ég var virkilega spennt að fara að spila og fannst rosalega gaman að keyra niður í höllina. Við fórum samferða á bíl við stelpurnar og vorum bara að grínast og flissa allan tímann eins og góðar vinkonur gera.
Hvernig heldurðu að Haukar-Keflavík fari?
Ég held að Keflavík fari með sigur að hólmi í þessum leik. Þetta verður alls ekki gefins, enda er það aldrei þannig í þessari keppni. En Keflavík vinnur þennan leik, ekki spurning.
Takk fyrir mig
Pálína M. Gunnlaugsdóttir
Sjá einnig:
Bikarupphitun – Helena Sverrisdóttir 2005