Guðbjörg Norðfjörð er uppalinn Haukamaður þrátt fyrir að hafa spilað lengst af með liði KR. Árið 1992 spilaði Guðbjörg með Haukaliðinu og varð bikarmeistari með þeim það árið. Guðbjörg deilir hér með okkur hvernig dagurinn var í sínum fyrsta leik í Höllinni.
Hvernig upplifun var það að verða bikarmeistari? Var hún eins og þú bjóst við?
Upplifunin var frábær og í raun betri heldur en maður var búin að ímynda sér. Ég var að fara í „Höllina“ í fyrsta skipti, alveg græn bakvið eyrun og fannst þetta allt svo geggjað. Tilfinningin þegar titillinn var í höfn er í raun ólýsanlegur og mismunandi í hvert skipti. Þetta er einn af þeim hlutum sem ekki komast upp í vana (-:.
Segðu okkur frá því helsta sem þú manst frá úrslitaleiknum 1992.
Ég er nú ekki sú besta að muna hluti (-:. En það rifjast ýmislegt upp þegar maður leggur höfuðið í bleyti. Ingvar Jónsson var að þjálfa okkur og við vorum „litla“ liðið í Höllinni þetta árið. Keflavík var búið að vinna að mig minnir nánast alla leikina sína í deildinni en við ekki. Ingvar var náttúrulega snillingur að undirbúa liðið og við vorum staðráðnar í koma, sjá og sigra. Við fórum í raun létt með þær, vorum yfir allan tímann og unnum þær, að mig minnir, 70-54 (nú kemur í ljós hvort minnið haldi úffff).
Hvernig leið þér fyrir leik?
Ég var bara í stuði, með marga reynslubolta sem sáu til þess að við hinar vorum tilbúnar svo ég tali nú ekki um Ingvar Jónsson. Þetta var frábær upplifun að fá að fara í Höllina þar sem bara þeir bestu fengu tækifæri.
Hvernig heldurðu að Haukar-Keflavík fari?
Þetta verður hörkuleikur þar sem ekkert verður gefið eftir. Haukar eru litla liðið í þessum leik þannig að það er enginn pressa á þeim. Þær eiga að koma í þennan leik afslappaðar og brjálæðislega hungraðar og ef það gengur eftir þá sigrar mitt lið.
Sjá einni:
Bikarupphitun – Pálína M. Gunnlaugsdóttir 2007
Bikarupphitun – Helena Sverrisdóttir 2005