Tvöfaldur Haukasigur – myndir úr leikjum kvöldsins

Bryndís Jónsdóttir fór hamförum í kvennaleik kvöldsinsÖskudagur reyndist góður dagur fyrir Haukana. Meistaraflokkur kvenna vann glæsilegan sigur á Stjörnunni 26-22 og strákarnir sigruðu HK 31-24. Stelpurnar eru því aðeins einu stigi á eftir Stjörnunni en strákarnir eru sem fyrr á toppnum. Markverðir liðanna áttu góðan dag. Bryndís Jónsdóttir var maður dagsins en hún varði 29 skot í marki Hauka, þar af tvö víti. Aron Rafn Eðvarðsson varði einnig vel í fjarveru Birkis Ívars og Stefán Huldar kom einnig við sögu í marki strákanna. Systir hans, Hanna Guðrún var markahæst í liði Hauka með 9 mörk gegn Stjörnunni og Sigurbergur Sveinsson átti annan stórleikinn í röð með 11 mörk. Strákarnir halda til Spánar á morgun og mun Haukasíðan færa fréttir af ferðinni. Stelpurnar mæta Fylki næst á útivelli 3. mars. Fullt af myndum úr leikjunum má nálgast með því að velja „Lesa meira“.

Sigur Haukastelpnanna var síst of stór en þær mættu grimmar til leiks og tóku strax forystu. Bryndís Jónsdóttir fór hamförum í fyrri hálfleik og varði hátt í tuttugu skot. Í hálfleik var staðan 15-10 og enn breikkaði bilið á milli liðanna í seinni hálfleik. Stjörnustúlkur gáfust þó ekki upp og Florentina varði vel og þá minnkaði forskot Hauka. Sigurinn var samt aldrei í hættu og fjögurra marka munur var á liðunum þegar leiktíminn rann út. Þetta er annar sigur Hauka á Stjörnunni í N1 deild kvenna og er nú einungis eins stigs munur á liðunum tveimur í þriðja og fjórða sæti. Hanna Guðrún og Ramune voru sem fyrr markahæstar með níu og fimm mörk hvor.

Strákarnir tóku á móti HK öðru sinni á aðeins fimm dögum. Gestirnir frá Kópavogi mættu ákveðnari til leiks að þessu sinni og var nokkuð jafnræði með liðunum í fyrri hálfleik. Valdimar Fannar Þórsson ætlaði greinilega að vera beittari í þessum leik en um síðustu helgi og skoraði grimmt utan af velli og af vítalínunni. Sigurbergur Sveinsson var grimmur fyrir Hauka líkt og í leik liðanna í bikarnum síðasta laugardag og fór fyrir sínu liði. Í hálfleik var staðan 17-15 fyrir Hauka. Í seinni hálfleik var oftast um þriggja marka munur en Haukarnir bættu í síðustu 10 mínútur leiksins. Lokastaðan var 31-24 eins og áður segir.

Hér að neðan má sjá myndir úr leikjum kvöldsins sem Pétur Haraldsson tók.