Undirbúningur fyrir Evrópuleik – myndir og fréttir frá Logrono

Heimavöllur Rioja-liðsins er glæsilegur og er búist við um 3000 manns á leiknum á morgunMeistaraflokkur karla undirbýr sig af kappi fyrir leikina tvo gegn Naturhouse La Rioja í 16 liða úrslitum Evrópukeppni félagsliða sem fara fram um helgina á heimavelli Rioja-liðsins í bænum Logrono á norð-austur Spáni. Strákarnir hristu af sér ferðarykið á æfingu fyrr í dag sem fór fram í glæsilegri íþróttahöll Rioja-liðsins. Upphitunin fólst í klassískri viðureign eldri og yngri í fótbolta og gamlir sigruðu 2-1 en það var glæsilegt mark Óskars Ármannssonar sem skildi liðin að. Meginhluti æfingarinnar fór svo í taktískan undirbúning fyrir fyrri leikinn annaðkvöld. Með því að velja „Lesa meira“ hér að neðan má sjá myndir af strákunum og fræðast nánar um spænska liðið.

Naturhouse La Rioja er ungt spænskt félag og er að taka þátt í Evrópukeppni í fyrsta skiptið. Þeir slógu serbneska liðið RK Crvena Zvezda Beograd út í síðustu umferð með því að ná jafntefli á útivelli og sigra svo örugglega með sjö mörkum á heimavelli. Rioja-liðið er sem stendur í sjöunda sæti spænsku deildarinnar en þar tróna Ciudad Real og Barcelona á toppnum eins og svo oft áður. Rioja tapaði í vikunni gegn Vallodolid með einu marki á heimavelli 22-23 en gestirnir skoruðu úr víti að loknum leiktíma og tylltu sér í þriðja sæti deildarinnar, stigi á undan Ademar Leon. Aragón og San Antonio er svo í næstu sætum fyrir ofan Rioja-liðið.

Haukastrákarnir hafa horft á brot úr þremur leikjum liðsins frá því í vetur og ljóst er að hér er á ferðinni sterkt lið, sérstaklega sóknarlega sem mun koma til með að leggja mikla pressu á Haukaliðið með hröðum bolta. Örvhenta skyttan Guardiola er öflugur skotmaður sem strákarnir þurfa að hafa góður gætur á. Hornamennirnir eru einnig mjög góðir, hraðir og góðir fintarar en hægri hornamaðurinn Juarez var markahæstur í báðum leikjum liðsins í síðustu umferð Evrópukeppninnar. Miðjumaðurinn Victor Vigo er klókur og snar leikmaður sem er góður í gegnumbrotum og línuspili en síðri skotmaður. Slóvneskur markmaður leikur með liðinu, Gregor Lorger, en hann er annar tveggja útlendinga í liðinu. Hann verður þó eini útlendingurinn í leikjum helgarinnar því Rússinn Bahskin er fjarri góðu gamni og kom á hækjum í höllina í dag. Hann er sterkur hægri hornamaður en Rioja-liðið er þó ekki á flæðskeri staddir í þeirri stöðu með fyrrnefndan Juarez. Rioja-liðið spilar ýmist 5:1 eða 6:0 vörn og þá síðarnefndu leika þeir gjarnan óvenju framarlega og því gæti skapast rými fyrir línuspil. Þeir keyra mjög gjarnan hraða miðju og því má búast við hröðum leik á morgun.

Haukastrákarnir fóru yfir taktíkina fyrir leikina á videofundi fyrr í dag og svo á æfingu í Palacio de los Deportes þar sem 3851 áhorfendur geta fylgst með leiknum úr sætum sínum. Þeir sem sitja í efstu röðunum eru sannarlega hátt uppi og þurfa að hafa góða sjón því leikmennirnir eru ansi smáir að sjá þaðan. Höllin var tekin í notkun árið 2003, sama ár og klúbburinn var stofnaður. Það var kalt í höllinni og því mikilvægt að hita vel upp í fótbolta. Rúnar sjúkraþjálfari hafði í nógu að snúast með að huga að Birki Ívari og Gunnari Berg sem eru enn að jafna sig af þeim meiðslum sem hindruðu þátttöku þeirra í HK leiknum. Einar Örn verður ekki með í fyrri leiknum sökum leikbanns. Fjölmiðlar voru mættir á staðinn, fulltrúar frá a.m.k. þremur dagblöðum auk sjónvarpsstöðvar. Aron Kristjánsson var því drjúga stund að ræða við fjölmiðla að lokinni æfingu. Í flestum blöðum dagsins er fjallað um leikina og í einu þeirra er t.d. risamynd af Pétri Pálssyni.

Hér að neðan má sjá myndir af strákunum:

Horft yfir Palacio de los Deportes

Strákarnir að hefja æfinguna í dag

Maðurinn sem hefur séð þetta allt áður, reynsluboltinn Hörður Davíð fylgist með enn einni æfingunni

Allt kapp er lagt á að gera Gunnar Berg kláran fyrir leikina 

Einar Örn skýtur ekki á markið í fyrri leiknum þar sem hann verður í leikbanni

Liðleiki er dyggð

Það var svona kalt í höllinni - a.m.k. fyrir þá sem hlupu ekki um

Rútan sem hópurinn ferðast um í

Palacio de los Deportes

Heimasíða félagsins en þar má m.a. nálgast frétt um undirbúning liðsins fyrir leikina gegn Haukum og fjölda myndbanda.