Frítt á völlinn í boði Rio Tinto Alcan
Haukar mæta þýska stórliðinu TV Grosswallstadt í síðari leik liðanna í 32-liða úrslitum EHF-keppninnar í handknattleik og hefst leikurinn kl 17:00 laugardaginn 27 nóv. Grosswallstadt vann nauman sigur í fyrri leiknum, 26-24, og Haukar eiga því góðan möguleika á að komast áfram.
STÓRVELDI MEÐ LANGA SÖGU
Grosswallstadt er fornfrægt stórveldi í evrópskum handknattleik og hefur félagið 7 sinnum orðið þýskur meistari og í fjórgang bikarmeistari. Liðið varð Evrópumeistari meistaraliða árin 1979 og 1980, í síðara skiptið sigraði liðið Val í úrslitum. Síðasti Þýskalandsmeistaratitill Grosswallstadt kom árið 1990 og árið 2000 sigraði liðið í Borgarkeppni Evrópu. Með liðinu leika fjölmargir landsliðsmenn, þar á meðal okkar eigin Sverr Jakobsson.
Haukar hafa undanfarin ár haldið merki íslensks handbolta á lofti í Evrópukeppnunum. Eftir að hafa náð þriðja sæti í sínum riðli Meistaradeildar Evrópu féll liðið út í 16-liða úrslitum EHF-keppninnar 2009 gegn þýska liðinu Nordhorn. Á síðasta tímabili fór liðið aftur alla leið í 16-liða úrslitin en féll úr leik gegn spænska liðinu Naturhouse La Rioja. Þátttaka í Evrópukeppninni er gríðarlega kostnaðarsöm og þurfti félagið að selja heimaleiki sína í 16-liða úrslitum undanfarin tvö ár. Leikmenn, stjórn og stuðningsmenn Hauka hafa lagt gríðarlega hart að sér til að fjármagna þátttökuna undanfarin ár við erfiðar aðstæður. Í því augnamiði halda Haukar, í samvinnu við Úlfar Eysteinsson matreiðslumann, Sjávarréttaveislu að Ásvöllum að leik loknum og opnar salur kl 19:00 Þar gefst áhugamönnum kostur á að bragða á því besta sem hafið færir okkur, matreiddu af okkar fremsta kokki. Allur ágóði rennur beint í Evrópusjóð Hauka og kostar miðinn aðeins 5.500 krónur.
STUÐNINGUR NAUÐSYNLEGUR
Haukar þurfa að öllum þeim stuðningi að halda sem völ er á. Til að þess að íslensk lið eigi þess kost að taka þátt í Evrópukeppnum í framtíðinni er nauðsynlegt að allir leggjist á eitt. Handknattleiksdeild Hauka hvetur Íslendinga til að fjölmenna í íþróttahúsið að Ásvöllum og styðja Hauka. Íslensk handboltalið hafa sýnt það í gegnum tíðina að með dyggum stuðningi áhorfenda er allt hægt. Stuðningur fjölmiðla skiptir þar miklu máli og vonast Haukar eftir jákvæðri umfjöllum sem flestra í aðdraganda leiksin.
Með vinsemd og virðingu,
Valdimar Óskarsson
Formaður handknattleiksdeildar Hauka