Unglingaflokkur karla áfram í bikarnum

Emil Unglingaflokkur karla gerði góða ferð í Vodafone höllina á miðvikudagskvöldið og sigraði sameiginlegt lið Vals/ÍR í 8.liða úrslitum bikarkeppni KKÍ. Leikurinn endaði Valur/ÍR 81 – Haukar 106 og komust Íslandsmeistara Hauka í þessum flokki því örugglega áfram eftir frábæran leik okkar stráka. 

Heimasíðan fékk pistil frá Ívari Ásgríms þjálfara.

 

Haukar byrjuðu gríðarlega vel og voru vel stemmdir í byrjun, skoruðu fystu 16 stig leiksins, vörnin að virka vel þar sem pressað var eftir skoraðar körfur og fallið í svæði á eftir en annars var spiluð maður á mann vörn ef ekki náðist að skora.

Haukarnir voru að hjálpa vel í vörninni og áttu Valur/ÍR í miklum vandræðum með að komast framhjá sterkri vörninni og þegar það tóks beið Örn eftir þeim og náði að loka vel teignum. Eftir fyrsta leikhluta var staðan orðin 27 – 14 okkar strákum í vil. Frábær fyrsti leikhluti og strákarnir ákveðnir í því að gefa ekkert eftir. Annar leikhluti þróaðist mjög svipað og allir þeir sem komu inná í leiknum lögðu sig vel fram í vörninni og skipti engu máli hver var inná vellinum, allir stóðu fyrir sínu. Í hálfleik var munurinn orðinn 20 stig, 36 – 56.

Í síðari hálfleik var spilað nokkuð jafnt á öllum leikmönnum og þeir héldu áfram að spila góða vörn og fá auðveld stig úr hraðarupphlaupum. Eftir þriðja leikhluta var staðan 56 – 82. Stákarnir náðu að halda haus í fjórða leikhluta og kláruðu leikinn 81 – 106 og eru komnir áfram í undanúrslit.

Strákarnir sýndu sparihliðarnar þetta kvöldið. Emil kórónaði frábæran leik sinn með sinni fyrstu troðslu í leik og var hún einstaklega glæsileg, stal boltanum í vörninni og brunaði upp, ákveðinn í að ná troðslu, og hamraði boltanum í körfuna. TIL HAMINGJU EMIL – LOKSINS.

Haukur Óskars endaði leikinn á einstaklega glæsilegri troðslu – Bragi stal boltanum er 5 sek. voru eftir af leiknum og náði góðri sendingu á Hauk sem brunaði upp völlinn og tróð yfir einn varnarmann Vals á lokasekúndunni.

Endirinn verður varla glæsilegri, en Haukur átti fjórar glæsilegar troðslur í leiknum en þessi stórskytta náði aldrei þessu vant að setja niður þrist í leiknum.

Stigaskor: Emil Barja 30, Örn 22, Steinar 12, Haukur 9, Bragi 8, Guðmundur Kári 7, Uni Þeyr 7, Guðmudnur Darri 5, Andri 4 og Alex Óli 2.