Heimasíðan setti sig í samband við Marel Örn Guðlaugsson fyrrum leikmann Hauka og bað hann um að rýna í leikinn. Marel segir að þetta eigi eftir að verða athyglisverður leikur og að leikurinn verði hníf jafn til síðustu mínútu.
„Þetta ætti að verða athyglisverður leikur. Þarna er efsta lið 1. deildar að mæta í heimsókn til okkar. Þór hefur ekki tapað leik í vetur, þannig að þeir ætla að halda sigurgöngu sinni áfram og mæta fullir sjálfstrausts,“ segir Marel og telur að leikurinn verði jafn en að breidd Þórs liðsins sé ekki nægileg til að knýja fram sigur.
„Ég reikna með að þessi leikur verði í járnum mest allan leikinn, en geri þó ráð fyrir að við klárum þetta í 4ja leikhluta, lokatölur 85-77. Þórs liðið hefur ekki mikla breidd, en er með góða 5-6 leikmenn og eru að keyra leikina sína á fáum mönnum. Við eigum að hafa meiri breidd en þeir og geta nýtt okkur að spila stíft á þá og keyra upp hraðann“.
Marel segir að Haukar verði að vera með vörnina á hreinu því að Þórsliðið er með fína nýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna.
„Í Þórsliðinu eru margar skyttur og skv. tölfræðinni þá eru þeir að nýta skotin sín vel, sérstaklega fyrir utan þriggja stiga línuna, en liðið er að nýta 44% skota sinna utan línunnar. Það eru 3 útlendingar í Þórs liðinu, sem allir eru að skila yfir 20 stigum, þannig að vörnin þarf að vera í lagi“.