Haukar unnu góðan sigur í kvöld gegn spræku liði Þórs Þ. í 16-liða úrslitum Powerade-bikarsins í körfubolta á Ásvöllum. Haukar höfðu sigur 84-74 í leik sem var í járnum allan tímann.
Óskar Magnússon setti öll fimm stigin sín á síðustu mínútu leiksins og kláraði Þórsara í kjölfarið. Haukar leiddu 77-74 en þá setti Óskar gott skot úr horninu og kom Haukum í 79-74. Haukar unnu boltann í næstu sókn og þá setti Óskar annað skot og fékk víti að auki. Setti það ofaní og Haukar leiddu 82-74 og björninn unninn þegar aðeins 38 sekúndur voru eftir.
Leikurinn var hin mesta skemmtun og spennustigið afar hátt hjá leikmönnum beggja liða. Mistök voru hjá báðum liðum en munurinn var aldrei mikill og mest 1-3 stig allan leikinn og því spenna alveg fram í blálokin.
Haukaliðið barðist af krafti í fráköstunum og tóku heil 30 sóknarfráköst sem er alveg hreint ótrúlegt en fjórir leikmenn liðsins náðu 10 fráköstum eða fleiri í leiknum.
Gerald Robinson var með 21 stig og 15 fráköst. Semaj Inge setti 18 stig og tók 10 fráköst. Sveinn Ómar Sveinsson setti 13 stig og tók 10 fráköst. Haukur Óskarsson átti góðan leik en hann var með 12 stig allt úr þristum. Emil Barja átti góðan dag en hann var með 8 stig, 14 fráköst, 3 stoðsendingar, 3 stolna bolta og 2 varin skot. Örn Sigurðarson var með 7 stig, Óskar Magnússon var með 5 og Davíð Páll Hermannsson náði ekki að skora en hann barðist af krafti.
Hjá Þór var Eric James Palm með 33 stig en þar fer á ferð afar góður leikmaður. Hjalti Valur Þorsteinsson setti 8 stig en hann er aðeins 18 ára gamall og sýndi að mikið í hann er spunið.
Umfjöllun um leikinn á Karfan.is
Myndasafn úr leiknum á Karfan.is
Viðtal við Óskar Magnússon og Benedikt Guðmundsson á Karfan.is