Haukar-b unnu mjög góðan sigur á Stjörnunni í gærkvöldi í 1. deild kvenna. Stjarnan var taplaus fyrir þennan leik í 1. deildinni og þær ætluðu sér að sækja sigur á Ásvelli í kvöld en rauði herinn var svo sannarlega ekki á því að gefa nágrönnum sínum úr Garðabænum sigurinn og gerðu okkar stúlkur sér lítið fyrir og sigruðu örugglega í kvöld.
Þessi sigur þýðir að nú er b-liðið okkar komið á topp 1 deildar ásamt A-liðum Vals og Stjörnunnar. Leikurinn endaði með öruggum sigri okkar stúlkna 62-46 eftir að staðan í hálfleik hafði verið 32-28 fyrir Hauka.
Seinni hálfleikur var eign okkar frá upphafi til enda, stelpurnar skelltu einfaldlega í lás í vörninni og léku Haukastelpur gríðarlega vel.
Langmest mæddi á Bryndísi, Þórunni, Margréti Rósu, Lovísu Björt og Ínu Salome og stóðu þær sig allar frábærlega. Kristín Fjóla spilaði líka sinn fyrsta leik í mjög langan tíma og stóð sig vel en hún er hægt og rólega að komast af stað aftur eftir erfið hnémeiðsl.
Liðið okkar fékk liðstyrk úr yngri flokkum í kvöld og voru Freydís, Sólrún og Sigrún Elva með okkur vegna meiðsla og fjarveru annarra gjaldgengra leikmanna í b-liðinu úr meistaraflokknum. Ungu stelpurnar fengu allar að spreyta sig og stóðu sig vel þann stutta tíma sem þær fengu í sviðsljósinu.
Stig Haukastúlkna skiptust þannig:
Margrét Rósa 20
Bryndís 18
Þórunn 10
Lovísa Björt 9
Sólrún 3
Ína 2
Þetta var síðasti b-liðsleikurinn fyrir jól og er markmiðið að gera enn betur í 1 deildinni á nýju ári.