Haukastelpur léku við Njarðvík í IE-deildinni í gærkvöld og náði í leiknum að hefna fyrir síðasta leik milli þessara liða sem endaði með stórsigri Njarðvíkur. Haukaliðið hefur verið að finna taktinn upp á síðkastið og ljóst að þær ætla sér að vera eitt af fjórum liðum í efri hluta deildarinnar þegar henni verður skipt upp.
Eftir að staðan hafði verið jöfn eftir fyrsta leikhluta ,16-16, skiptu Haukar algjörlega um gír og litu aldrei til baka. Haukar unnu annan leikhluta með 13 stigum og náði Njarðvík einungis að setja niður sjö stig gegn sterkri svæðisvörn Haukakvenna.
Haukar unnu á endanum afgerandi 28 stiga sigur 47-75 og styrkja stöðu sína fyrir uppskiptingu deildarinnar og sitja sem fastast í 4. sæti með 12 stig tveimur á eftir KR sem er með 14 stig í 3. sæti.
Katie Snodgrass var stigahæst með 25 stig og 6 fráköst og íris Sverrisdóttir var henni næst með 18 stig.