KSÍ birti í dag á vef sínum drög að leikjaplani í Lengjubikar karla og kvenna en gert er ráð fyrir að fyrsti leikurinn í Lengjubikarnum hefjist 17.febrúar 2011.
Karlalið okkar er í A-deild keppninnar í 3.riðli en A-deildinni er skipt í þrjá riðla og komast einungis fjögur lið áfram í 4-liða úrslit en þar er breyting á, því síðustu ár hefur ávallt verið átta lið sem komast áfram í úrslitakeppnina. Ástæðan fyrir breytingunni er sú að Pepsi-deild karla hefst fyrr en vanalega á næsta ári vegna úrslitakeppni Evrópumóts U-21 árs landsliða þar sem Ísland er meðal átta þjóða.
Liðin sem Haukar eru með í riðli eru eftirfarandi: ÍR, Grindavík, Þróttur R., FH, BÍ/Bolungarvík, Fylkir og Stjarnan. Semsagt fjögur Pepsi-deildar lið og fjögur 1.deildarlið.
Áætlað er að fyrsti leikur Hauka í Lengjubikarnum verði í Reykjaneshöllinni gegn BÍ/Bolungarvík 19.febrúar og í 2.umferð mætast síðan Haukar og FH einnig í Reykjaneshöllinni 27.febrúar.
Kvennaliðið er í riðli með: Grindavík, FH, ÍBV, Þrótti R. og Aftureldingu. Áætlað er að fyrsti leikurinn hjá þeim verði gegn Grindavík 12.mars á Ásvöllum.