Arnar Aðalgeirs seldur frá Haukum til AGF

Arnar er að halda á vit ævintýranna í Danmörku.Haukar og danska liðið AGF hafa komist að samkomulagi um sölu á knattspyrnumanninum Arnari Aðalgerirssyni. Arnar sem er aðeins 16 ára gamall hefur alist upp hjá Haukum og þessi fljóti kantmaður hefur verið einn af burðarásum í yngri flokkum félagsins og átti mikilvægan þátt í að gera 4. flokk félagsins að fyrstu Íslandsmeisturum Hauka. Arnar hefur að undanförnu einnig verið fastamaður í undir 17 ára landsliði Íslands.

Á síðustu árum hefur knattspyrnudeild Hauka lagt ríka áherslu á uppbyggingarstarf innan félagsins og ráðið til sín yngriflokka þjálfara í fremstu röð. Fremstur meðal jafningja er Freyr Sverrisson sem þjálfar 4.-6. flokk félagsins og Árni Hjörvar Hilmarsson sem þjálfar 3. flokk ásamt því að aðstoða nýjasta meðlim unglingaþjálfara félagsins engan annan en Luka Kostic.

Einnig hefur verið ráðin nýr yfirþjálfari yngri flokka kvenna Kristján Arnar Ingason. Jafnframt því að ráða topp þjálfara kom félagið af stað akademíu í samstarfi við grunn- og framhaldskóla í Hafnarfirði. Skólastjóri akademíunnar er Kristján Ómar Björnsson.

Ljóst er að þessi uppbygging er að skila frábæru starfi. Fyrsti Íslandsmeistaratitill Hauka í knattspyrnu vannst 2008 og eru nú flestir yngri flokkar félagsins með lið í fremstu röð. Þetta hefur vakið verðskuldaða athygli og eiga Haukar nú marga menn í yngri landsliðum Íslands ásamt því að fjöldi leikmanna frá félaginu hefur verið á reynslu hjá erlendum liðum – enda orðið algengt að sjá „scout-a“ koma á leiki hjá yngri flokkum félagsins.

Þó að meistaraflokkar félagsins hafi haft stutta viðdvöl meðal þeirra bestu í ár er ljóst að framtíðin er björt enda 5-7 leikmenn 16-17 ára að æfa með meistaraflokki félagsins um þessar mundir.

Haukar vilja þakka Arnari frábært samstarf og við vitum að hans verður sárt saknað meðal félaganna enda frábær drengur þar á ferð, jafn innan sem utan vallar. Við óskum honum velfarnaðar í framtíðinni og hlökkum til að fygljast með afrekum hans á knattspyrnuvellinum fyrir íslenska landsliðið og AGF.