Kæru Haukafélagar, við óskum ykkur gleðilegs afmælisárs og þökkum fyrir stuðninginn á liðnum árum. Á árinu eru tvö stórafmæli, Knattspyrnufélagið Haukar 80 ára og Körfuknattleikssambandið fagnar 50 ára afmæli.
Haukar bjóða upp á sannkallaða körfuboltaveislu á Ásvöllum í vikunni sem hefst í kvöld, 5. janúar, á stórleik í Iceland Express deild kvenna. Haukar taka þá á móti liði Keflavíkur. Leikurinn hefst kl. 19.15. Mjög góð stemmning var á síðasta heimaleik hjá stelpunum, þegar þær knúðu fram framlengingu með flottri flautukörfu, og viðbúið er að stemmningin verði einnig frábær á morgun.
Henning Henningsson, þjálfari meistaraflokks kvenna, kemur fyrir leikinn og spjallar við Hauka í horni um andstæðinginn og helstu áherslur kvöldsins.
Ef ármótaheitið fólst ekki í að hreyfa sig meira á nýju ári, þá ætti það að minnsta kosti að vera að fylgjast með öðrum hreyfa sig og um að gera að byrja á því strax á morgun. Haukastúlkur voru að komast á ágætis skrið fyrir jól og vonandi að framhald verði á því á nýja árinu. Liðið hefur misst Telmu Fjalarsdóttur fyrirliða úr hópnum vegna anna við vinnu, en við eigum stóran og breiðan hóp sem verður ekki í vandræðum með að fylla hennar skarð. Ragna Margrét íþróttakona Hauka tekur við keflinu sem fyrirliði og hún tekur ekki neitt annað í mál en sigur í fyrsta leik. Keflavík hefur bara tapað einum leik í deildinni í vetur og því kominn tími á tapleik númer tvö.
Allir úr sófanum og upp á Ásvelli að fylgjast með meyjunum kljást við Keflavík. Það var að myndast góð stemming í húsinu fyrir áramót með Sigurjón Sigurðsson (Didda) sem kynni ásamt aðstoðarmönnum og við höldum því að sjálfsögðu áfram.
Það verður kaffi og með því í boði fyrir meðlimi Hauka í horni, en hinir sem ekki eru í þeim frábæra félagsskap geta alltaf verslað í Haukasjoppunni.
Með Haukakveðju,
Kvennaráðið.
Veislan heldur svo áfram á fimmtudaginn, 6. janúar, en heyrst hefur að Haukafólk ætli að fjölmenna á Þrettándagleðina og svo á leikinn á eftir, Haukar – Hamar í Iceland Express deild karla. Sá leikur hefst 19.45.